144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:48]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Þetta hefur einmitt komið fram, þessi ólíka nálgun, annars vegar í makrílfrumvarpinu og hins vegar í þessari tillögu. Við erum miklu hlynntari því sem er í þessari tillögu og styðjum það, þ.e. bæði að minni bátarnir geti fengið aflaheimildir til leigu og auðvitað stóra atriðið að þær eru ekki framseljanlegar.

Eins og ég sagði í ræðu minni áðan þá er vert að rifja upp frumvarpið sem við lögðum hér fram á síðasta kjörtímabili þar sem við vildum setja 20 þús. tonna leigupott til ríkisins sem við vildum svo stækka með auknum heildarafla. Það er mjög sérkennilegt að þeir sem geta kannski ekki keppt við stóru útgerðirnar, þ.e. litlu aðilarnir með 30 tonna báta og minni, megi ekki gera þetta, en auðvitað viljum við helst hafa þetta þannig að það verði ekki kvótasett gagnvart stórútgerðunum eins og hitt frumvarpið kveður á um og við höfum talað gegn í 1. umr., þar erum við eins og hv. þingmaður benti á að gefa frá okkur auðlindina. Hæstv. ráðherra vildi ekki gangast við því en auðvitað er það ekkert annað en það, þegar ekki á að kvótasetja heldur láta menn hafa heimildir til sex ára sem framlengjast árlega — nota bene, þetta á að framlengjast sjálfkrafa árlega. Það getur ekki verið hægt að lesa öðruvísi úr því en að þar með sé hægt að fastsetja það til viðkomandi útgerða til langs tíma. Menn eru því ekki alveg samkvæmir sjálfum sér sem setja þessi tvö mál fyrir okkur á þinginu og það væri auðvitað vert að spyrja ráðherrann að þessu, það er synd og skömm að hann skuli ekki vera hér. Þetta mál hefði auðvitað átt að bíða þangað til að hann gæti staðið hér og svarað fyrir það því ég er ekki viss um að staðgengill hans, sem situr nú vissulega hér á kantinum í hliðarherbergi, geti svarað akkúrat þessu þótt ég fullyrði ekki að svo sé.