144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Næst eða næstnæst okkur í sögu liðinna áratuga er auðvitað Flateyri. Við munum öll hvað gerðist þar og hversu erfitt var að skjóta stoðum á nýjan leik undir hið mannlega samfélag þar. Yfir vofði á síðustu missirum svipuð örlög á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík, þó að það högg sem maður taldi að mundi slæmast á þau byggðarlög hefði orðið minna en í upphafi virtist. En ef maður reynir að skyggnast inn í framtíðina, kannski 20 ár, er hægt að sjá þrjá, fjóra staði þar sem var hægt að spá því fyrir að töluverðar líkur væru á að þegar viðkomandi fjölskylda sem fer með handhöfn kvótans eða útgerðarmaður bara gefst upp eða hættir fyrir aldurs sakir og vill losa sig út úr greininni þá er byggðarlagið í hættu. Þetta blasir við og við vitum það. Og miðað við þau tæki sem við höfum núna eru þau heldur klén til að reyna að lina það högg.

Ég er sammála hv. þingmanni og mér finnst hún tala af skynsemd þegar hún segir: Það þýðir ekkert að ætla sér að taka sífellt stærri hluta heildaraflamarksins í neyðaraðgerð af þessum toga. En þegar svona gerist í byggðarlagi, þá er tvennt sem þarf að gerast. Í fyrsta lagi þarf að koma einhvers konar langtímaáætlun um uppbyggingu viðkomandi staðar. En það þarf líka að vera möguleiki á að grípa til einhvers konar skyndiaðgerða, við getum kallað það plástra eða hvað sem er til að hjálpa byggðarlaginu að komast yfir þann hjalla sem verður þá á vegi. Það vill svo til að við höfum séð það af þessum sérstaka kvóta, sem er tengdur fiskvinnsluhúsum, og fer í gegnum Byggðastofnun að það er miklu betra tæki en almenni kvótinn. Þess vegna hef ég verið að velta því upp hér í örstuttum andsvörum í dag, hvers vegna förum við ekki þá leið að nota allan almenna kvótann í gegnum þann farveg? Yrði það ekki miklu happasælla og mundi hjálpa okkur til að bregðast við í svona aðstæðum?