144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hoppa inn í umræðuna þar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hóf hana og hv. þm. Lilja Rafney var að enda hana. Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í það hvernig best sé að haga þessu kerfi þannig að sem minnst þörf sé á aðgerðum sem séu háðar því að verið sé að bæta upp annmarka á kerfinu sjálfu. Ég spyr sérstaklega vegna þess að mig langar að fá álit hv. þingmanns á því sem hefur verið kallað fyrningarleiðin eða uppboðshugmyndir í kringum kvótakerfið, hvernig hv. þingmaður sjái það fyrir sér og þá einkum með hliðsjón af lausnum eins og byggðakvóta og þvíumlíku.

Ég veit að hv. þingmaður kemur úr kjördæmi þar sem kvótakerfið hefur verið hvað umdeildast, ef ég skil rétt. Mörg sjávarpláss þar hafa farið mjög illa út af þeim atburðum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsti hér áðan. Það var á þeim forsendum sem mér skilst að Framsóknarflokkurinn, sællar minningar, hafi náð árangri sínum á sínum tíma. En það er kannski helst af þeim ástæðum sem ég sæki í hv. þingmann hvað það varðar hvernig hægt sé að bæta kerfið sjálft.

Ef kvótakerfið gengur út á það að kvótinn sjálfur sé háður einhvers konar eignarrétti flækist málið heilmikið að mínu mati. Ef 34. gr. frumvarps stjórnlagaráðs væri komin til, um auðlindir og nýtingu á þeim, held ég að það væri aðeins einfaldara að sjá fram á hvaða lausnir væri hægt að setja fram í þeim efnum.

Þar sem hv. þingmaður býr yfir þekkingu á málunum hef ég mikinn áhuga á að heyra það sem hv. þingmaður hefði viljað segja hefði hún haft meiri tíma.