144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Vandinn eins og ég sé hann er einmitt sá að við komumst ekki á hreint borð úr því sem komið er. Kvótakerfið er mjög fast í sessi eins og er og það varðar ýmis réttindi eins og eignarrétt manna og þvíumlíkt. Þess vegna er afskaplega erfitt, ef ekki hreinlega ómögulegt, að taka burt þetta kerfi og setja upp nýtt í staðinn.

Það er því tvennt sem mér þykir mjög mikilvægt að hafa huga. Þegar við leitum að varanlegum lausnum, eða langtímalausnum í það minnsta, þurfum við að huga að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég hefði áhuga á að heyra meira frá hv. þingmanni um viðhorf hans til auðlindaákvæðisins í frumvarpi stjórnlagaráðs. Mér líst mjög vel á það sjálfum og það er stefna okkar að taka það upp og jafnvel stjórnarskrána í heild sinni.

Það er í fyrsta lagi sú grundvallarbreyting, sem mér sýnist vera nauðsynleg, stjórnarskrárbreyting, til að taka á því erfiða viðfangsefni sem er réttmæt tilætlan þeirra sem eiga kvótann til að halda eignum sínum í samræmi við mannréttindin eignarrétt.

Við þurfum síðan að íhuga hvort hægt sé að móta kerfið þannig að á þeim tíma, á meðan við erum að finna langtímalausnir, sé hægt í það minnsta, ef ekkert annað, að haga kerfinu á þann veg að við festum okkur ekki í einhverju sem við komumst aldrei aftur út úr. Í þessu sambandi er oft nefnt þetta með sex árin, að menn vilja skuldbinda ríkið í sex ár til að tryggja fyrirsjáanleika — jafnvel í makrílnum þar sem enginn náttúrulegur fyrirsjáanleiki er til staðar, ef út í það er farið. Þar lendum við í vandræðum og menn reyna að finna lausnir til að festa okkur ekki í þessu kerfi þannig að við getum aldrei breytt því. Við þurfum, að mínu mati, að forðast slíkt.

Fyrst og fremst þurfum við að huga að stjórnarskrárbreytingu í auðlindamálum til að geta tekist á við spurninguna um eignarrétt þeirra sem þegar eiga kvóta.