144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir kröftuga ræðu. Ég veit að hjarta hans slær með landsbyggðinni eins og fleiri þingmanna. Hann talar um að hægt sé að skoða að tengja aflaheimildir með einhverjum hætti við byggðarlögin og festa kvóta við fiskvinnsluhúsin. Ég vil benda á að oftar en ekki eru fiskvinnsluhúsin og útgerðirnar í eigu sömu aðila svo að því miður gengur það ekki alltaf, þó að ég sé alveg hreint á því að það sé rétt að skoða allar leiðir.

Þetta með hið mikla frelsi sem hefur verið, hv. þingmaður talar um að hann sé stuðningsmaður núverandi óhefts framsals í kvótakerfinu þó að hann sjái vissulega að það hafi haft margar afdrifaríkar afleiðingar. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér að hægt verði að mæta þeim alvarlegu búseturöskunum sem hafa fylgt þessu óhefta markaðskerfi, sem hefur verið hér við lýði frá því upp úr 1990, og hvort hann sjái fyrir sér að það verði sama óhefta markaðskerfið í nýrri fisktegund, þ.e. makrílnum, hvort við höfum ekki lært eitthvað af reynslunni.

Mig langar að benda á það sem haft var eftir forsvarsmanni sjómannasamtaka í Noregi. Hann varaði við íslensku leiðinni í kvótakerfi, þeirri óheftu samþjöppun sem hefði orðið á Íslandi og sagði að það mætti ekki gerast við Noregsstrendur þar sem stórir aðilar væru að reyna að kaupa upp kvóta við strendur Norður-Noregs. Hann sagðist hafa horft til Íslands og varaði við því sem hefði gerst þar.