144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í sporum Norðmanna mundi ég líka skoða íslenska kerfið mjög vel áður en ég tæki það upp hrátt. Eins og ég var að reyna að segja í ræðu minni áðan þá væri hægt að hugsa sér kerfi sem alla vega svaraði þörfum sjávarbyggðanna betur en núverandi kerfi ef menn væru að byrja upp á nýtt. Ef menn mundu skilja á milli veiða og vinnslu og tengja hluta af aflaheimildunum við húsin þá held ég að það væri nokkur vörn. Sömuleiðis er ég dálítið upptekinn af því, á meðan við höfum þetta kerfi óbreytt, með hvaða hætti við getum búið til tæki sem hjálpa okkur til þess að svara þeim skyndilegu aðstæðum sem við sem stjórnmálamenn höfum nokkrum sinnum staðið frammi fyrir. Hvaða meðul eru til þess? Eitt af meðulunum eru náttúrlega strandveiðarnar sjálfar. Þær skipta verulega miklu máli. Ég meina, strandveiðarnar eru ekkert annað en dreifing í reynd á aflamarki. Þeim var komið á í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þær hafa verið auknar upp í 8.600 tonn og það er verið að auka makrílhlutdeildina verulega til þeirra. Ég fagna því mjög.

Ég og hv. þingmaður höfum hér í dag átt drjúga samræðu yfir þetta púlt um hvernig væri hægt að nýta litla pottinn, byggðakvótann, betur í þessu skyni. Mér hefur virst að við séum sammála um að almenni byggðakvótinn hafi ekki gefið góða raun. Við höfum hér í dag verið að velta því fyrir okkur hvort það mætti kannski setja meira af honum í gegnum Byggðastofnun af því að það hefur gefið betri raun. En kannski gæfi bestu raunina að láta stærri hluta af þessum litla potti í strandveiðiflotann. Ég held að það sé að minnsta kosti einnar messu virði að skoða það.