144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Það gleður mig mjög að hv. þingmaður hefur notið ráðgjafar frá Súðavík í dag vegna þess að hún er hér að tala við gamlan togarasjómann sem var frá Súðavík líka, þ.e. mig.

Um þetta mál segi ég: Í fyrsta lagi hef ég vonda reynslu af því að vera á móti sjónarmiðum hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur þannig að bara af þeim sökum er ég til í að skoða þetta. Í öðru lagi á maður alltaf að hlusta á sjónarmið sjómanna. Þau hafa reynst vel. Í þriðja lagi er öryggi sjómanna. Það hefur alltaf ráðið miklu um afstöðu okkar þingmanna þegar við höfum verið að ræða ýmislegt sem varðar smábáta og smábátasókn. Þetta þarf allt saman að vega mjög vel á móti þeim rökum sem hv. þingmaður taldi upp af ærleika síns hjarta. Það er skref í áttina að kvótasetningu. Þegar við vorum á sínum tíma að ræða strandveiðarnar og koma þeim á með erfiðismunum í gegnum þingið þá var eitt af því sem var hugsað mest um og menn ræddu hvað skýrast hér að menn vildu ekki að þetta yrði kvótasett. Það var alltaf tilhneiging til þess. Ég er alveg reiðubúinn til að skoða það.

Það sem mig langar aðeins í blálokin að drepa á er þetta: Við erum hérna með 5,3% af aflamarkinu og það á að nota í þessum tilgangi. Spurningin er: Er hægt að nota það betur en við erum að gera í dag til þess að gilda stoðirnar undir byggðarlögunum? Já, ég held að það sé hægt. Ég held að það eigi að taka það sem er núna sett í skel- og rækjubætur og taka almenna kvótann og skoða hvort það skili sér betur í gegnum Byggðastofnun og í gegnum strandveiðiflotann. Ég held að það væri alla vega einnar messu virði fyrir hv. þm. Pál Jóhann Pálsson að beita sér til dæmis fyrir því (Forseti hringir.) að skoða það í nefndinni þar sem hann ræður því sem hann vill, eins og reynslan (Forseti hringir.) hefur sýnt.