144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:33]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu eins og honum einum er lagið. Ég er ekkert að erfa það við hv. þingmann og búinn að fyrirgefa honum það þótt hann hafi hlaupið á sig hér í bræði þegar illa lá á honum að líkja mér við eða uppnefna mig sem einhvern hryðjuverkamann. Ég er ekkert að erfa það. Ég er svo sem vanur því af sjónum að menn missa ýmislegt út úr sér en ég er ekkert að erfa það.

Við erum um margt sammála og ég heyri að hjartað slær hjá okkur flestum hér fyrir því að verja byggðir og alltaf togast þetta á, hvað við eigum að verja miklu af aflaheimildum til þess að verja byggðirnar og hvernig við eigum að hafa þetta þannig að þjóðin hljóti sem mestan arð af greininni.

Ég heyri það á talsmáta hv. þingmanns í dag að hann er mjög hlynntur byggðakvóta Byggðastofnunar og það kemur líka fram í skýrslunni frá Vífli Karlssyni að sérstaki byggðakvóti Byggðastofnunar sem veittur er á vinnslurnar hefur virkað betur. Mig langar að spyrja hann, kem kannski betur að því í síðari spurningu, hvar hann hefði helst borið niður til þess að efla þann kvóta Byggðastofnunar. Við höfum úr mörgu að spila hérna. Við erum með línuívilnun, skel- og rækjubætur og svo almenna byggðakvótann eins og hann var. Hvar mundi hv. þingmaður helst bera niður?