144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég get huggað hv. þingmann með því að hann er ekki eini maðurinn í þessum sölum á síðustu 20 árum sem ég hef kallað talíbana. En hv. þingmaður er gamall sjómaður og veit að stundum í hita leiksins, án þess að því fylgi nein sérstök bræði sem er nú ekki neitt sem hægt er að tengja við mig, tala menn stundum við hver annan með tveimur hrútshornum. Það gleður mig hins vegar og ég sef betur yfir því að vita það að hv. þingmaður kippir sér ekki upp við smáræði.

Hvar mundi ég bera niður? Á tveimur stöðum. Ég hef haft efasemdir um skel- og rækjubæturnar og ég tel að það ætti að vera búið að leggja þær af. En það sem er jákvætt við tillöguna er að það er sólarlag varðandi þetta. Síðan er ég svolítill tæknikrati. Þegar sérfræðingar meta málin og komast að niðurstöðu þá hef ég tilhneigingu til þess að mæla ekki í gegn þeim. Þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að þó að reynslan af þeirri aflahlutdeild sem Byggðastofnun hefur forsjá fyrir sé lítil, skammvinn, þá er hún mjög jákvæð. Hvers vegna þá ekki að fara að því? Ég segi ekki að almenni byggðakvótinn hafi verið mér þyrnir í augum en ég hef bara séð það í gegnum árin að hann hefur stundum nýst mjög illa. Stundum hefur hann nýst ágætlega en hann hefur stundum nýst illa. Leiðin sem er farin þarna er leið sem menn veltu mjög fyrir sér og ræddu mjög mikið á árunum fyrst eftir að ég kom á þing, sem var að tengja einhvern hluta við húsin og það hefur sína galla líka.

Síðan nefni ég það til þess að gleðja hv. þingmann að ég er þeirrar skoðunar að það verði aukið töluvert mikið við þorskaflann á komandi sumri. Mér fyndist bara allt í lagi að hluti af því mundi renna í þetta og til þess að auka strandveiðarnar, (Forseti hringir.) restina ætti auðvitað að setja á uppboð. Ég veit að hv. þingmaður í hjarta sínu er mér sammála um það.