144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:38]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott ef þetta kvöld verður til þess að hv. þingmaður sefur betur. Varðandi markaðslausnina þá spyr ég hv. þingmann hvort hann sé virkilega ekkert hræddur við að það muni bara leiða til þess að þeir fáu og sterku verði ofan á. Ef eitthvað á að bjóða þá eru það alla vega þeir sterkari sem munu verða ofan á í þeim slag.

Við erum sammála um að tengja þetta við fiskvinnsluna og það sé svona framtíðarlausnin. En fyrirsjáanleiki er líka mikilvægur og menn voru sammála um það í þessum hóp að vera ekki að breyta þessu mjög mikið, ekki kúvenda á einni nóttu, við erum ekki mikið fyrir það þarna í atvinnuveganefndinni. [Hlátur í þingsal.] Við viljum hafa varann á en við gefum aðeins tóninn, gefum tóninn og í álitinu er imprað aðeins á því að þetta stefni þangað.

Varðandi skel- og rækjubæturnar þá langar mig að fá álit hv. þingmanns varðandi það sem ég nefndi áðan, hvort í þeim tilfellum þar sem útgerðir létu af hendi þorskkvóta á móti skelbótum sé ekki einhver sanngirni í að þeir njóti þess að fá þá ekki alveg sömu skerðingu og aðrir. Er ekki hv. þingmaður sammála um það?

Þetta er ekki þingsályktun til þriggja ára, það er tekið eitt ár núna en gefur tóninn þannig að næsta ár verður kannski farið lengra. (Forseti hringir.) Þar sem reynslan af þessu fyrirkomulagi er nú stutt er gott að við notum það áfram (Forseti hringir.) og þegar reynslan verður orðin meiri þá höfum við meira fyrir okkur.