144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er gaman að heyra hv. þm. Pál Jóhann Pálsson slá hér á rétta strengi nú þegar líður á kvöldið og fjalla um hófsemi meiri hlutans í atvinnuveganefnd í tillöguflutningi í þinginu. Það er ástæða til að færa fram þá frómu ósk við meiri hlutann í atvinnuveganefnd að þetta ágæta þingmál komi ekki fram með breytingartillögu um fjórar eða fimm virkjanir hér á milli umræðna eins og síðasta þingsályktunartillaga sem var til meðferðar í hv. meiri hluta atvinnuveganefndar, enda er eins um þessa þingsályktun og þá sem stóð hér föst í þinginu í átta daga og átta nætur að hún er nú af hendi ráðherrans að mörgu leyti ágæt.

En áður en við förum í efnisatriði tillögunnar eru önnur atriði sem vert er að ræða lítils háttar, því að um leið og ýmislegt í efni tillögunnar er ágætt þá er hreint hraksmánarlegt með hvaða hætti tillagan kemur inn í þingið og hvernig umbúnaðurinn um hana er.

Ráðherranum ber að leggja þingsályktunina fram fyrir þingið. Honum ber að gera það eftir lögunum eins og þeim var breytt hér í þinginu og honum bar að gera það á yfirstandandi þingi. Það er algerlega skýrt að frestur til framlagningar mála hér á hverjum vetri er ekki 1. júní heldur 1. apríl. Það er góð ástæða fyrir því að sú dagsetning var sett inn. Hún er til að tryggja að hér í þinginu sé vönduð málsmeðferð. Það héldum við að menn hefðu verið sammála um þvert á stjórnmálaflokka í þinginu. Eftir hrunið og eftir hina lærdómsríku skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hversu gríðarlega mikilvægt það er að vanda málsmeðferð hér í þinginu, að hafa til hennar nægan tíma, leita til færustu aðila um umsagnir og ábendingar um það sem betur má fara. Þess vegna er algerlega óboðlegt að lögbundin þingsályktunartillaga um jafn mikilvægan hlut og byggðaaðgerðir í sjávarútveginum komi inn svona seint. Og í raun og veru er enn hörmulegra að ráðherrann sjálfur sem flytur tillöguna skuli ekki einu sinni vera í færum til að fylgja eftir sinni eigin tillögu við 1. umr. í þinginu. Það sýnir bara hvers konar handvömm það er af hálfu ráðherrans að koma svona seint fram með málið að hann getur ekki fyrir vikið verið viðstaddur 1. umr. um sitt eigið mál, jafn mikilvægt mál og það er nú, þar sem hann þurfti að sinna opinberum erindum í Færeyjum, ef ég hef skilið það rétt.

Það er auðvitað ástæða til þess að hvetja hæstv. forseta til að láta ráðherra ríkisstjórnarinnar finna að hann hafi meint eitthvað með setningarræðu sinni á setningarfundi Alþingis síðastliðið haust þegar það var sérstaklega brýnt fyrir ráðherrum að þeir þyrftu að koma tímanlega inn með mál ef þeir ætluðust til að fá þau afgreidd. Þá skýtur því nokkuð skökku við að hér sé rudd dagskráin til að hraða inn málum sem allir vissu að leggja ætti að fram, sem lögskylt er að leggja fram, til að þau geti fengið hér einhverja flýtimeðferð í þinginu eftir að starfsáætlun er lokið og þingið ætti að vera farið í frí. Þetta vinnulag nær náttúrlega ekki nokkurri átt.

Um leið varðandi form málsins er það ánægjulegt og í rauninni fagnaðarefni að atvinnuveganefnd skyldi festa það í lögin hér við fyrri umfjöllun um þessi mál að ráðherra fái tillöguvaldið í þessum efnum, þ.e. að leggja til ráðstöfunina á þessum 5,3% aflaheimildanna sem verja á í þágu byggðanna eða landsbyggðarinnar í þessu efni, en hann hafi ekki alræðisvald um það eða geti ákveðið það bara einn við sitt skrifborð í ráðuneytinu heldur þurfi hann að koma með tillöguna inn í þingið og hann þarf líka að koma með tillögu um ráðstöfun til lengri tíma eins og atvinnuveganefndin bjó um hnútana. Ég held að það sé til fyrirmyndar hjá nefndinni að hafa tryggt það að þingið hafi aðhald, eftirlit og aðkomu að endanlegri aðkomu að endanlegri ákvörðun í jafn mikilvægum málum og þetta eru, en að ekki sé verið að auka á ráðherraræðið í þessu efni.

Það má auðvitað velta því fyrir sér svona í grunninn hvort þessi 5,3% sé hæfilegur hlutur fyrir þær byggðir sem eiga á brattann að sækja fyrir strandveiðarnar og fyrir aðrar aðgerðir sem í þessum potti eru, en miðað við að ekki sé meira til ráðstöfunar en það. Þá vil ég segja að það er ýmislegt jákvætt efnislega í þeim tillögum sem ráðherrann hefur komið með hér inn. Ég vil nefna þar flutninginn úr stóra byggðakvótanum yfir til Byggðastofnunar. Ég held að það sé jákvætt að þar er verið að verja hluta af þessum heimildum sérstaklega til að styðja við það sem við köllum brothættar byggðir, byggðir sem eiga sérstaklega í vök að verjast, og að hægt sé að ráðstafa heimildum til lengri tíma en eins árs í senn, því að það vita allir að þegar byggð er komin í vanda þarf að vinna að því að leysa úr honum á lengri tíma en 12 mánuðum. Þess vegna er gott að hægt sé að gera áætlanir til þriggja ára í senn. Einnig er jákvætt að Byggðastofnun komi með sínu faglega mati að þeim ráðstöfunum. Það sýnist mér vera framfaraskref frá því sem er í núverandi verki.

Einnig finnst mér horfa til framfara það sem gert er varðandi rækju og skel, það eru út af fyrir sig svipaðar tillögur og voru uppi af hálfu fyrri stjórnarmeirihluta eða síðasta stjórnarmeirihluta, ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, um að þessar rækju- og skelbætur, sem áttu að vera tímabundnar, verði látnar fjara út á nokkrum árum í áföngum þannig að það komi ekki of bratt á þá sem þeirra njóta í dag, en það er eðlilegt og sjálfsagt að það sem átti að vera tímabundið fjari út á nokkurra ára tímabili.

Ég hefði þó kosið að sjá gerðar ákveðnar breytingar í strandveiði. Ég held bæði að sú jákvæða reynsla sem við höfum af strandveiðinni og sá mikli og almenni stuðningur sem er við það að gefa mönnum kost á því að stunda strandveiðar hér við Ísland eigi að gefa okkur tilefni til að velta því fyrir okkur hvort ekki þurfi að auka nokkuð hlut þeirra í heildaraflamarkinu og kannski væri ástæða til að auka hlutfallið úr 5,3% og eitthvað upp á við. En ég held líka að það væri full ástæða til að endurskoða fyrirkomulagið þannig að ekki sé kapphlaup um veiðarnar fyrstu dagana í hverjum mánuði heldur sé þessu hagað og skipulagt með einhverjum skynsamlegri hætti, og ég vísa þar til tillagna sem hv. þm. Lilja Rafney hefur sett fram og einnig hv. varaþingmaður og fyrrverandi hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir.

Þá vil ég nefna að hin aukna hlutdeild í makrílnum sem ráðherra leggur til er vissulega jákvæð en maður veltir fyrir sér hvort ekki mætti nota tilboðsleiðina (Forseti hringir.) eða uppboðsleiðina til að úthluta henni fremur en það sem hér er lagt til.