144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[21:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Um strandveiðarnar — jú, sannarlega var það jákvætt skref hjá okkur á síðasta kjörtímabili að hleypa þeim af stokkunum. Þær hafa að mörgu leyti, að ég ekki segi flestu leyti, gefið góða raun þó að ástæða sé til að endurskoða skipulagið þannig að menn séu ekki að veiða þetta allt fyrstu dagana í mánuðinum.

Um leið og við þurfum að íhuga það að auka magnið í strandveiðunum, meðal annars í því ljósi að síðasti fiskurinn á Íslandsmiðum verður ekki veiddur á handfæri, tel ég mikilvægt að við gætum þar sérstaklega að tveimur þáttum sem mér finnst helst vera ástæða til að hafa áhyggjur af í strandveiðunum. Það eru annars vegar öryggismálin, öryggismál þeirra sjómanna sem nýta þessa leið, og hins vegar gæði vörunnar. Ég held að gæðin hafi raunar farið talsvert batnandi en það má alltaf auka þau í því sem við erum að gera.

Það sem þingmaðurinn nefndi um makrílfrumvarpið og hvernig þetta frumvarp stangast í raun á við prinsippin í hinu málinu þá er það alveg hárrétt athugað. Ég held að ríkisstjórnin og ráðherrann hljóti að vera fallin frá því að úthluta til 6 ára, það er víðtæk andstaða við það í samfélaginu. Þó að hugsanlega megi réttlæta það að úthluta hluta heimildanna, kannski fjórðungi eða svo, til þeirra sem öfluðu okkur þessara réttinda held ég að langstærstum hluta þeirra heimilda eigi að ráðstafa með því að bjóða þá einfaldlega upp á tilboðsmarkaði.