144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt út af því sem hv. þingmaður nefnir sem er mikilvægt að þetta ákvæði fari í stjórnarskrá. Það eru margir sem segja og það hefur verið sagt í þessum sal að það sé alveg nóg að í lögum um stjórn fiskveiða standi í 1. gr. að auðlindin sé eign þjóðarinnar. En síðan deila menn um, eins og mér skilst að deilan hafi verið á milli stjórnarflokkanna — nú má vera að það sé ekki rétt hjá mér og þeir stjórnarliðar sem eru í salnum, það er að vísu bara einn akkúrat núna, geta þá komið hér á eftir í ræðu og leiðrétt mig ef ég fer með rangt mál — en mér skildist að þegar ákveðið var að koma ekki með breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu eða stóra fisk hér inn í þingið hafi það verið vegna deilna á milli stjórnarflokkanna um hver réði yfir auðlindinni. Þeir voru sammála um að þjóðin ætti hana en hún réði kannski ekki alveg yfir henni af því að aðrir væru komnir með einhverja hefð, einhver hefð væri komin á það að útgerðarmenn réðu yfir henni. Það er út af svona málum sem það er brýn nauðsyn á að koma skýru auðlindaákvæði í stjórnarskrána sem ég vona að verði í anda stjórnlagaráðs þar sem þetta er allt saman tiltekið.