144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Með girðingum er pólitíkin farin að skipta sér svolítið af. Það er auðvitað hægt að miða við eitthvert hlutfall af verði aflaverðmæta undanfarinna mánaða eða meðaltal einhvers X tíma. Við erum ekki alveg sammála um að tilboðsleiðin sé hin eina sanna leið. Ég mundi heldur vilja sjá einhverja blandaða leið.

Mig langar að ræða 11. lið í tillögunni, þann síðasta sem fjallar um tekjur sem fást við sölu aflaheimilda. Nú sitjum við báðar í fjárlaganefnd og þar er talað um að gert sé ráð fyrir að tekjurnar sem fást af ráðstöfun aflaheimilda á grundvelli tillögunnar, þá annars vegar af síldinni og hins vegar af makrílnum sem er ekki verðsettur hér, renni til byggðatengdra verkefna samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Þetta er algerlega opið upp á gátt og í rauninni kemur ekki neins staðar fram í hvaða verkefni eða með hvaða hætti úthlutunin verði. Í fyrsta lagi finnst mér þetta vera of opið. Ég mundi vilja heyra að þetta yrði sett í sóknaráætlun, í einhver tiltekin byggðaverkefni, í Byggðastofnun eða eitthvað slíkt.

Ég velti fyrir mér hvort það væri eðlilegt að við í fjárlaganefnd fengjum þetta til umræðu við gerð fjárlaga þegar ljóst verður um hvað við erum að tala til ráðstöfunar því að maður veit það ekki. Er þetta viðbótarfjárhæð við það sem sett er í byggðatengd verkefni eða dregst þetta frá því sem áður hefur verið lagt fram o.s.frv.? Væri eðlilegt að þetta kæmi til umfjöllunar þar? Hvað finnst hv. þingmanni um það?