144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nýta hér síðari ræðu mína til að fara aðeins yfir strandveiðarnar. Það er búið að úthluta strandveiðileyfunum eða það er búið að setja reglugerð um strandveiðar þessa sumars. Hún var sett 15. apríl þannig að það sem við erum að fjalla um núna er það sem á að gera fyrir næsta sumar, árið 2016. Þess vegna undrar mann svolítið hvernig þetta er keyrt á hraðanum hér núna. Það eru að vísu lagaákvæði um það en menn hafa boðað breytingar strax í haust á þessari þingsályktunartillögu þannig að við megum þá eiga von á nýrri þriggja ára áætlun strax í haust.

Það sem mig langaði aðeins að ræða hér er það sem tengist strandveiðunum og hvernig við getum þróað þetta form áfram. Það hefur verið lagað mjög mikið, settar reglur um hverjir mega vera í strandveiði o.s.frv., það er býsna mikil sátt um það í sjálfu sér, en það sem hefur verið tekist töluvert á um er svæðaskiptingin þar sem skipt er í fjögur svæði. Þar er A-svæðið frá Eyja- og Miklaholtshreppi yfir í Súðavíkurhrepp, gríðarlega stórt svæði enda með mestar aflaheimildir. Það hefur komið í ljós að þar eru langflestir bátarnir og þeir klára alltaf sitt tímabil fyrstir. Veiðin er á sjö til átta dögum í hverjum mánuði ef það viðrar vel. Við höfum fylgst með því í fréttum þegar tilkynnt er að það sé verið að loka viðkomandi svæði.

Sumir hafa gert tillögur um að það megi bæta við með því að ákveða dagafjöldann og leyfa mönnum að veiða frjálst innan þess tíma. Nefndir hafa verið 12 dagar. Ég heyrði þá hugmynd í dag. Það mundi þýða viðbótarkvóta upp á um 2 þús. tonn en ég held að við þurfum að taka þessa umræðu og átta okkur á því hvernig hægt er að gera þetta.

Ég vitnaði í fyrri ræðu minni í frumvarp til laga um strandveiðar sem þáverandi hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir, Mörður Árnason og Skúli Helgason voru meðflytjendur á. Það var tillaga um að deila út veiðiheimildunum fyrir sumarið þannig að það deildist niður á mánuðina og menn réðu síðan hvenær þeir færu á sjó, m.a. til að tryggja að menn væru ekki að fara út í vitlausu veðri í ólympískum veiðum, keppast um að nýta tímann og komast þá miklu styttra, jafnvel óhagkvæmara hvað varðar fiskgæði og annað slíkt. Ég held að það sé mikilvægt að taka þetta til umræðu í hv. atvinnuveganefnd og kem því hér á framfæri við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur sem er varaformaður nefndarinnar.

Ég held að það sé mikilvægt að taka þessa umræðu vegna þess að þarna erum við að skipuleggja okkur aðeins fram í tímann. Ég sagði líka í fyrri ræðu minni, og vil ítreka það hér, að það er mjög mikilvægt ef maður notar svona aflamark eða leyfir mönnum að veiða og ráða dögunum að það sé óheimilt að flytja það á milli báta, að fénýta þetta með nokkrum hætti. Það þarf að vera alveg skýrt að ekki stendur til að kvótasetja bátana til lengri tíma vegna þess að þá erum við bara komin með enn einn innganginn inn í varanlega kvótakerfið sem enginn áhugi er á. Við viljum að þessar strandveiðar séu viðbótarmöguleiki sem kemur að hluta til á móti hugmyndum um frjálsar veiðar við strendur Íslands. Það er millileið, leið sem þó væri mjög vert að skoða sem væri að innan við ákveðna fjarlægð frá landi væri heimilt að veiða frjálst.

Í því samhengi hef ég alltaf haft gaman af að vitna í að í raun er öllum heimilt að veiða við Íslandsstrendur sér til manneldis og sinnar fjölskyldu. Það er ekki þannig að menn megi ekki veiða sér til matar. Það er heimilt í kerfinu í dag. Það er mikilvægt að gleyma því ekki.

Ég vildi bara í seinni ræðu minni draga þetta fram og biðja hv. atvinnuveganefnd að skoða þessi mál alveg sérstaklega. Það er tími til stefnu, við náum ekki að breyta þessu fyrir sumarið eins og ég segi, reglugerðin liggur fyrir, og þá skiptir mjög miklu máli að menn gefi sér tíma til að skoða þetta og þá er kannski hægt að skoða það betur í haust ef það er tilfellið að það eigi að flytja tillögu aftur strax á haustþinginu.