144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum sammála um að strandveiðin á að vera utan kvótakerfisins. Það sem mig langar að ræða eru einmitt þau 5,3% sem þarna eru lögð saman í potta eða byggðaaðgerðir og dregin af heildarafla. Ég fagnaði því á sínum tíma þegar ákveðið var að taka allar kvótasettar tegundir undir þetta að það var dregið af heildaraflanum hjá öllum. Ég held að það hafi verið mikil réttarbót fyrir þá sem voru í þorskinum og þá sem voru á móti þeim sem voru í uppsjávarfiskinum.

Ég hef svarað því áður að ég tel að það sé ekki, ég held að það eigi að fara í hærri tölu. Það sem mér finnst skipta líka miklu máli núna, við fengum ekki stóra frumvarpið frá ráðherra, er að nú er þessu skipt algerlega í aflahlutdeild. Upphaflega var þetta miðað við þriggja ára veiðireynslu eins og frægt er orðið. Ef hér verður þorskaukning sem nemur tugum þúsunda tonna finnst mér eiginlega alveg út úr kortinu að þar fylgi alla leið upp alltaf sama prósentan til sömu skipanna. Einhvers staðar geta menn sett þak, jafnvel þótt þeir vilji taka tillit til þess að menn lentu í niðurskurði 2007, misstu 30% af kvótanum, sumir nýbúnir að fjárfesta í honum og allt það. Það er hægt að hafa einhvern aðlögunartíma en það er útilokað að menn elti þetta og jafnvel í nýjum tegundum eins og hér hafa verið hugmyndir um. Það finnst mér ekki koma til greina. Mér finnst skipta miklu máli að menn setji einhver efri mörk og úthluti viðbótinni með öðrum hætti og hugsanlega taki eitthvað meira í strandveiðina eða byggðaaðgerðir eins og hér er talað um í sambandi við byggðir.

Við erum alltaf í vandræðum með sama hlutinn. Við skulum bara taka Bolungarvík, hvernig getum við tryggt að stærsti kvótaeigandinn þar fari ekki þaðan á morgun? Fórnardýrið er ekki bara sjálf útgerðin, það er öll byggðin sem verður undir. Við erum búin að prófa þetta á Vestfjörðum og þá getum við sagt: Ókei, við getum keypt kvótann en þá verða skuldirnar á greininni á viðkomandi svæði (Forseti hringir.) eins og gerðist með Flateyrarkvótann á sínum tíma. Útgerðin verður að borga það niður og peningarnir fara út úr greininni.