144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en hefði reyndar óskað þess að hún væri lengri. Ég verð að viðurkenna að ég er mestmegnis að læra um sjávarútvegsmálin með því að díla við þau mál sem koma inn á þing, en ég hef alltaf tekið eftir því að í þessum málaflokki er afskaplega mikil reiði hjá svo mörgum að mér hefur fundist erfitt að gera greinarmun á hugmyndum til umbóta sem endurspegla þessa reiði og þeim hugmyndum sem eru til umbóta raunverulega til að bæta kerfið á einhvern skynsamlegan máta. Ég er svolítið ringlaður í því ef ég á að segja alveg eins og er. Mig langar að fá umræðu hérna um tilteknar hugmyndir sem ég er ekki alveg viss um hversu galnar séu.

Ein af þeim sem ég hef heyrt er sú að gera strandveiðar frjálsar með öllu. Fleiri en einn og fleiri en tveir sem ég hef talið að þekktu nokkuð vel til hafa nefnt þetta við mig. Ég veit ekki hversu raunhæft eða hversu skynsamlegt það er og inni því hv. þingmann eftir vangaveltum hans um þann þátt.

Síðan eru þessi 5,3%, þessi byggðakvóti. Með hliðsjón af eðli hans, því að hann er gerður til að bæta fyrir margt af þessum hræðilegu afleiðingum kvótakerfisins sem fólk talar svo mikið um, velti ég fyrir mér hvers vegna enginn hafi, a.m.k. ekki svo ég hafi heyrt hingað til, stungið upp á því einfaldlega að hann sé rosalega hár, að byggðakvótinn sé hreinlega 20–30% eða einhver svakaleg tala. Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður mundi bregðast við þeirri hugmynd. Aftur ítreka ég að ég veit ekki hversu raunhæfar þessar hugmyndir eru og þess heldur er ástæða til að ræða þær.

Í þessum málaflokki gætir kynslóðaskipta. Kynslóðin sem ég tilheyri og sú sem er yngri upplifði ekki það sem gerðist á fyrri hluta níunda og tíunda áratugar 20. aldar og eftir stendur ofboðslega hatrömm og erfið umræða sem einkennist mikið af reiði og þá er erfitt að átta sig á því hvað (Forseti hringir.) af þessu er raunhæft og hvað ekki.