144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á reyndar eina hetjusögu af mér í þessum málaflokki. Það var þegar ég var farinn að skilja heil ósköp sem ég hafði aldrei skilið áður og fékk ég hugmynd sem síðan kom í ljós að var meira eða minna hugmynd Samfylkingarinnar þannig að mér líst ágætlega á hana, þessa uppboðsfyrningarhugmynd.

Hins vegar velti ég fyrir mér leigumarkaðnum. Ég heyrði hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur áðan fara stuttlega út í útfærslu þar sem þriðjungur kvótans væri í leigu. Ég velti fyrir mér hver mundi þá eiga kvótann undir því fyrirkomulagi og sömuleiðis verður maður að spyrja: Hvers vegna höfum við hann ekki allan í leigu ef það er leiðin sem menn vilja fara? Ef menn vilja fara burt úr því kerfi að það megi selja kvótann, sem ég geri ráð fyrir að menn sem aðhyllast þessa hugmynd vilji, hvers vegna þá ekki að ganga alla leið? Öllu heldur: Hvað misskil ég með spurningunni ef hún er ekki alveg rökrétt? Það má vel vera, ég er eftir allt saman að læra ýmislegt.

Eftir stendur spurningin: Hvers vegna 5,3%? Hvers vegna ekki 20% í byggðakvóta burt séð frá því hvort það er einhvers konar leigukerfi eða hvað? Kannski hv. þingmaður varpi betra ljósi á það hvort hann sjái leigukerfið þá sem hluta af einhvers konar byggðakvótastefnu. Sömuleiðis velti ég þessu fyrir mér með strandveiðarnar, hvort þær megi ekki bara vera frjálsar, hvort það sé í raun og veru hægt að ganga of langt á fiskinn með strandveiðum einum og sér. Ég hef svolítið saknað umræðu um það vegna þess að mér er algerlega óljóst hversu vitfirrt sú hugmynd á að vera. Mörgum mönnum sem ég hef heyrt í finnst hún ekkert galin. Aðrir segja: Jú, hún er svolítið óábyrg. Að hvaða leyti er hún óábyrg? Og hversu langt getum við leyft okkur að ganga í þeim efnum?