144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:50]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég nefndi einmitt í ræðu minni að mér finnst alveg koma til greina að gera tilraunir með frjálsar strandveiðar. Fluttar hafa verið tillögur um það og þá miðað við ákveðin mörk hversu langt má sækja. Að vísu verðum við líka að hafa í huga að einhver réttur fylgir jörðunum upp við landið sem má þá ekki fara inn að. Þetta er réttur sjávarjarða. Þetta er eitt af því sem mér finnst full ástæða til að skoða. Menn hafa sagt að það sé engin áhætta fólgin í þessu, þetta sé ekki það mikið magn og þarna nái menn ákveðnum fiski sem þeir ná ekki öðruvísi o.s.frv.

Viðreisn hefur talað um tiltekna hugmynd eins og hún sé ný en hún er bókstaflega í sáttatillögunum í skýrslu sem er mjög þykk og liggur á borðinu hjá mér. Eitt af fylgiskjölunum er tillaga Samfylkingarinnar um kerfi sem miðar að því að þegar maður fær 100 tonn skilar maður alltaf 5% inn á markað. Það er gjaldtakan fyrir að fá að nota. Ef maður vill halda þeim rétti þarf maður að kaupa á markaði, fá sem sagt leiguréttinn, og þannig endurnýjast alltaf á hverju ári. Það fara aldrei nema 5% inn á markaðinn en það ætti að duga til að þá verði komið eðlilegt og sjálfsagt veiðigjald sem útgerðin teldi sig ráða við. Hins vegar hefur aldrei mátt ræða þessa hugmynd. Það byggir kannski á því að menn fengu 100% úthlutun í aflahlutdeild. Síðan kom upp að vera með línuívilnun og alls kyns smærri hluti og það hefur komist upp í 5,3%. Það eru ekki meiri vísindi á bak við þessi 5,3% en svo þannig að það er ekkert betri tala en hver önnur.

Þegar við erum að tala um leigumarkað hef ég talað um að það verði að vera kvótaþing eða opinber markaður. Í dag er markaður með aflaheimildir en hann er á vegum útgerðarinnar, hann kaupir af útgerðinni. Það er að vísu lítið framboð vegna þess að þeir þurfa að veiða mjög mikið sjálfir, en þangað sækja smábátarnir og þá eru menn að borga allt upp í (Forseti hringir.) 100–200 kr. fyrir þorskígildið á sama tíma og menn eru að deyja af því að borga 10–20 kr. í veiðigjald.