144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að lengja þessa umræðu mikið, enda get ég það svo sem ekki með fimm mínútna ræðutíma. Hér hafa verið frjóar og ágætar umræður og margar góðar hugleiðingar um það hvernig mætti vinna með þennan pott eftir atvikum, hvort hann þyrfti ekki að vera eitthvað stærri o.s.frv., og það er margt til að moða úr í þeim efnum.

Ég var búinn að benda á það misræmi sem er milli greinargerðar tillögunnar og tillögugreinarinnar sjálfrar og þarf svo sem ekkert að orðlengja um það. Ég geri ráð fyrir að hv. atvinnuveganefnd muni lagfæra það þannig að samræmi verði milli áformanna samkvæmt greinargerð um að ganga frá þessu aðeins til eins árs í senn og tillögugreinarinnar sem hins vegar neglir þetta niður í sex ár. Þannig á það væntanlega ekki að vera, annaðhvort verður að blíva.

Ég fjallaði aðallega í máli mínu um strandveiðarnar og aflamark Byggðastofnunar og er á svipuðum slóðum áfram. Það eru þeir þættir sem mér finnast áhugaverðir til framtíðar og ég hefði viljað sjá styrkjast. Það gera þeir vissulega, þ.e. sérstaklega Byggðastofnunarkvótinn. Ég fagna því sérstaklega að aukið er svigrúm Byggðastofnunar til að styðja við bakið á brothættum byggðum og veikum sjávarbyggðum með byggðafestukvóta til nokkurra ára, það er vel, um 1.000 þorskígildi eða svo og verður þarna afli upp á 4.670 tonn upp úr sjó sem er orðið þó nokkuð og eitthvað sem munar um. Hins vegar þarf að huga að því, bæði í tillögunni sjálfri og jafnvel í lögunum, ef einhverjar breytingar fara í gegn á lögum um stjórn fiskveiða á þessu vori, að það er algerlega nauðsynlegt að það sé fastara land undir fótum með þann hluta pottanna sem ákveðið er að verja til Byggðastofnunar þannig að fyrirkomulagið um að festa kvótann til þriggja til fimm ára, það séu innistæður fyrir því á hverjum tíma og megi ekki vera sólarlagsákvæði í bráðabirgðaákvæðum eða lögum sem rýra trúverðugleika þess að verið sé að skapa þannig byggðafestu með þessu.

Ég minni svo á þörfina fyrir að endurskoða byggðakvótann sem slíkan og í heild. Menn misstu smátt og smátt böndin af því. Upphaflega var það stuðningur við minni sjávarbyggðirnar, alveg eins og Byggðastofnunarkvótinn, en síðar komu upp aðstæður þar sem menn vildu mæta tilfallandi vanda í stærri byggðarlögum og íbúamörkin voru færð upp í skrefum þangað til þau voru komin í 2.000 íbúa, ef ég man það rétt. Það er varla hægt að tala lengur um það sem einhverja litla brothætta sjávarbyggð. Þetta og margt fleira þarf að taka til skoðunar í sambandi við byggðakvótann, hinn hefðbundna og gamla.

Varðandi strandveiðarnar hafa menn rætt ýmislegt í þeim efnum. Það sem ég legg fyrst og fremst áherslu á af minni hálfu, og mér er málið nokkuð skylt, er að strandveiðarnar verði opið neðsta lag í greininni. Áhyggjur mínar sem tengjast öllum hugmyndum um að festa þetta í dögum eða magni tengjast því að hætta byrjar þá að myndast á að menn fari að líta á þetta sem eitthvað sem þeir hafa fast í hendi ár frá ári og vilji fá því úthlutað. Ekki endilega kvótasetja það í hefðbundnum skilningi þess orðs en ef menn ætla að varðveita þetta element, að þetta sé opið lag fyrir nýliðun og uppeldi í greininni, neðst inn í greinina, þá verður að varðveita þau element með einhverjum hætti.

Er þá samt ekki hægt að mæta sjónarmiðum til dæmis um öryggi og ég skal vissulega viðurkenna að ég var með og hef oft verið með hnút í maganum yfir því að það væri auðvitað áhætta tekin ef kappið bæri menn ofurliði í því að sækja í rysjóttum veðrum á upphafsdögum hvers mánaðar. Að sjálfsögðu tekur svona kerfi ekki ábyrgðina af skipstjórnendum og gerir það aldrei. Í hvaða fiskveiðistjórnarkerfi sem er róið þá hvílir sú ábyrgð á þeim sem fara með skipið að tryggja öryggi og taka ekki áhættu en þarna getur myndast þrýstingur, það þýðir ekki að neita því. Það er hægt að hugsa sér ýmsar leiðir, og sumar mjög einfaldar, til að mæta því án þess að hrófla í raun og veru við uppbyggingu kerfisins að neinu öðru leyti. Það einfaldasta. sem ég tel að væri mjög auðvelt að gera, og hv. nefnd má svo sem skoða þann möguleika, er einfaldlega að í upphafi hvers mánaðar þegar tiltekinn bátahópur er tilkynntur inn á svæðið og ef er nú rysjótt veður á fyrsta degi eða þriðja degi þá geti minni bátar eða bátar frá þeim svæðum þar sem er vont í sjóinn einfaldlega tilkynnt sig inn og sagt: Þennan dag viljum við fá að geyma því að það er ekki sjóveður fyrir okkur í dag héðan. Þannig gætum við geymt einn, tvo, þrjá daga af þessum sex, níu sem eru opnir í hverjum mánuði þangað til síðar í mánuðinum þegar viðrar betur. Þá gerist þetta aftur upp innan mánaðarins og raskar ekki neinu og það eina sem er er að það eru möguleikar til að velja sér betra sjóveður síðar í mánuðinum. Þá gætu menn þess vegna haft heimild til að landa meðalafla viðkomandi mánaðar per bát á svæði og þá ættu menn þann rétt geymdan þar til betur viðrar.

Ég trúi þessu ekki, herra forseti. Eru fimm mínútur búnar? Þetta er ekki neitt.

(Forseti (EKG): Og gott betur, hv. þingmaður.)