144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sú hugmynd sem hv. þingmaður varpar hér fram kann vel að vera ómaksins virði, það kann að vera að í henni felist lausn á þeim vanda sem við höfum verið að ræða hér í dag varðandi strandveiðiflotann og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir lýsti hér mjög vel í dag. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki hins vegar að með þessu væru menn kannski að fikra sig svolítið nálægt því sem einhvern tíma gæti leitt til þess að menn mundu freistast til þess að kvótasetja veiðar þessa flota.

Það er önnur hugmynd sem mig langaði til þess að spyrja hv. þingmann um af því að ég komst ekki í það að reifa hana í fyrri ræðu minni í kvöld. Við erum með 5,3% af heildaraflamarki sem fara í það sem við höfum kallað hér og er kallaður litli pottur. Tilgangur hans er kannski tvíþættur, í fyrsta lagi að bæta stoðir undir dreifðum sjávarbyggðum víðs vegar við ströndina og í öðru lagi að veita okkur tækifæri til þess að koma til aðstoðar ef einhvers konar bráð nauðsyn kallar á, eins og þegar byggðarlag verður fyrir þeim skelli sem felst í því að kvóti er í stórum mæli skyndilega og fyrirvaralaust fluttur af svæðinu. Menn hafa talað hér um nauðsyn þess að hafa fjármagn til þess að byggja upp á slíkum svæðum og velt fyrir sér hvaðan það ætti að koma.

Hvað segir hv þingmaður við þeirri hugmynd að við mundum setja á markað þessi 5,3%? Það mundi auka nýliðun, það mundi skapa fjármagn og það fjármagn yrði allt sett í að byggja upp innviði eða setja í sóknaráætlanir á þeim svæðum sem brothættust eru.