144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvað fyrra atriðið varðar sem við hv. þingmaður eigum orðastað um þá er það vísast rétt hjá honum að þetta er hugsanlega háskaminnst fráhvarf frá núverandi kerfi. En óttast hann samt sem áður ekki, svo ég bara velti upp því sem kann að vera krítískt við þetta, að þar með sé stigið skref til þess að menn fari í framhaldinu að krefjast þess að það væri jafnvel hægt að kaupa dagana, framselja þá? Hver veit? Þetta eru hugmyndir sem strax hafa heyrst, það er einfaldlega þannig.

Varðandi pottinn og tækifæri okkar til þess að nota það sem í honum er til þess að létta undir með þeim sem lenda í hrakningum út af kvótakerfinu, hvað segir hv. þingmaður þá um reynsluna af almenna byggðakvótanum? Hún hefur ekkert verið neitt sérstaklega góð og við hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir höfum verið meira og minna sammála um það. Mætti ekki að minnsta kosti íhuga það að taka hann allan eins og hann leggur sig (Forseti hringir.) og setja hann inn í kvótann sem tengdur er Byggðastofnun með þeim umbúnaði sem þar er og miklu betri, allir sammála um það sem hér hafa talað í dag.