144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins í viðbót við það: Hvernig væri ástandið í íslenskum sjávarútvegi ef ekki væru þau þök á samþjöppun sem sem betur fer voru þó sett inn í lögin og hefðu mátt vera skýrari, þ.e. að ekkert eitt fyrirtæki eða tengd fyrirtæki mega eiga meira en 12% heildarveiðiheimildanna, 10% í þorski o.s.frv.? Ef engin þök af þessu tagi hefðu verið sett inn í kerfið og menn hefðu mátt sameina og kaupa upp og stækka eins og þeir vildu — ja, væri þá ekki líklegt að við værum komin með gamalkunnugt íslenskt mynstur í þessa grein eins og fleiri? Það væru hérna þrír markaðsráðandi risar sem skiptu þessu í aðalatriðum á milli sín og svo nokkrar trillur. Jú, ég held nefnilega að það hefði tiltölulega fljótt getað orðið niðurstaðan ef markaðurinn hefði einn fengið að leika lausum hala.

Varðandi leigu eða uppboð þá getur það verið svolítið eftir því hvernig menn nálgast það. Ef þú byrjar að stýra leigu eða uppboði á takmörkuðu magni veiðiheimilda — að enginn megi kaupa nema visst magn — þá ertu strax farinn að grípa aðeins inn í það. (Forseti hringir.) Vandinn er alltaf sá að þú getur ekki bara sagt A. Ef þú ferð út í það að bjóða upp og vilt fá hæsta verð þá verðurðu líka að segja B. Þá verðurðu að láta hæstbjóðanda fá.