144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil á þeim fimm mínútum sem ég hef til ráðstöfunar til að fjalla um þingsályktunartillöguna í seinni ræðu minni aðeins hnykkja á fleiri þáttum en ég komst yfir í dag þegar ég ræddi tillöguna eftir flutning ráðherrans. Mín nálgun á þessum fiskveiðistjórnarmálum hefur oft verið á þann veg að spyrja og reyna að leggja mitt af mörkum til að meiri samstaða náist um þennan mikilvæga atvinnuveg hér á landi, meiri samstöðu en er í dag þar sem greinin býr í raun og veru við það að hafa úthlutun til aðeins eins árs í senn. Í raun er þess vegna hægt að breyta öllu. Það er ekki gott fyrir eina atvinnugrein að hafa óvissuna svona mikla.

Þess vegna vil ég segja það í upphafi máls míns, eins og ég hef sagt margsinnis áður, að númer eitt er að ná samkomulagi um að binda það í stjórnarskrá að auðlindirnar í hafinu séu sameign þjóðarinnar líkt og gert er í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna.

Númer tvö er að komast að einhverju ákveðnu samkomulagi um hvað verði mikið sett í það sem við höfum kallað stóra kerfið og hvað verði sett í minna kerfið, svipað og við erum að tala um í dag, þ.e. skiptinguna á þessum 5,3%, og hvað það eigi að vera mikið. Á það að vera 5,3% eða á það að vera 10% eða hvað?

Númer þrjú er að ákveða veiðileyfagjald í framhaldi af því sem búið er að gera og leggja á hóflegt veiðileyfagjald sem allir flokkar eru sammála um. Það er okkar hér að útfæra það. Það voru stór og mikil skref stigin á síðasta kjörtímabili með því að setja sérstaka gjaldið. Almenna gjaldið er búið að vera miklu lengur. Þá er spurning: Hvað er hóflegt veiðileyfagjald og hver á stofninn að vera? Þar er verið að þróa það áfram í betra kerfi en við höfum í dag, m.a. er byggt á tölum úr Hag veiða og vinnslu frá Hagstofunni sem eru alltaf tveggja ára gömul gögn. Við þurfum líka að geta komist að niðurstöðu um einhvers konar þrepaskiptingu sem er þannig núna að 25–50 stærstu útgerðirnar eru vel aflögufærar og borga það sem þær borga í veiðileyfagjald. Má ég minna á það sem sagt var á aðalfundi Granda, gott ef það var ekki Kristján Loftsson sjálfur stjórnarformaður sem sagði að þeir væru sáttir við að greiða sitt veiðileyfagjald. Sá stofn sem lagður er getur verið mjög íþyngjandi fyrir smærri útgerðir. Ég get ekki hugsað til þess, virðulegi forseti, að veiðileyfagjöld virki þannig að þau auki á samþjöppun í þessari atvinnugrein. Síðan er spurning með veiðileyfagjaldið hvernig við ráðstöfum tekjunum í einhvers konar auðlindasjóð sem allir þegnar þessa lands njóta góðs af.

Eins og ég segi tókst á síðasta ári að koma því til leiðar, þegar ráðherrann hafði hug á þessum 5,3% og vildi skipta þeim sjálfur niður, að breyta því í meðförum atvinnuveganefndar Alþingis þannig að það verður að leggja fram þingsályktunartillögu og þess vegna er hún komin hingað núna. Þær breytingar sem hér er verið að gera eru litlar, við skulum segja fyrstu skref og eins og ég sagði líka í dag, en boðað er að það komi önnur þingsályktunartillaga í haust.

Hér hefur mikið verið rætt um strandveiðar og það allt saman í sambandi við smáu bátana. Menn tala stundum um að þessar veiðar séu ekki nógu arðbærar. Það getur vel verið að þær séu ekki eins arðbærar og hjá einhverri útgerð með eitt skip og fleiri þúsund tonn af kvóta en þær eru nauðsynlegar sem liður í þeirri sáttargjörð sem ég talaði um í byrjun. Ef maður fer yfir Hag veiða og vinnslu frá Hagstofunni þá er þar tölfræðileg skipting sem er búin að vera í tugi ára og það er hún sem er svo erfitt að vinna út frá. Eins og bátar undir 10 brúttótonnum sem eru rúmlega þúsund talsins — þar er sagt að hreinn hagnaður, eða EBITDA, sé í mínus 299 milljónum. Síðan eru teknir bátar 10–200 brúttótonn sem eru 280 talsins og sagt að þeir séu með hreinan hagnað upp á 4,5 milljarða. Þannig er hægt að nálgast þetta, en það sem ég er einfaldlega að segja er að það er svo erfitt að brjóta þetta niður út af þessari gömlu tölfræði sem var, eins og Hagstofan segir, aldrei hugsuð sem einhver álagningarstofn fyrir veiðileyfagjald eða eitthvað slíkt. (Forseti hringir.) Það er hægt að nýtast við þessi gögn til að bera saman frá ári til árs en okkur vantar að vita meira um einstaka útgerðarflokka og það er það sem ég vona (Forseti hringir.) að hagtölur muni sýna á komandi árum.