144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Mig langar aðeins að halda áfram að ræða strandveiðar. Þær hafa verið mikið í umræðunni og menn viðrað ýmsar útfærslur í þeim efnum, sem ég tel mjög gott og gott innlegg í vinnu atvinnuveganefndar að skoða hvort dagar geti komið til móts við gagnrýni strandveiðisjómanna eða það að menn tilkynni sig við upphaf veiðidags, þeir fari ekki á sjó vegna veðurs og eigi þá inni dag. Þetta allt finnst mér mega skoða.

Skipting milli hólfa hefur líka verið gagnrýnd, að það magn sem er í hverju hólfi og fjöldi báta í hverju hólfi sé ekki nægjanlega sanngjarnt. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því, hvort hann telur að eitthvert samspil eigi að vera á milli þess aflamagns sem er í hverju hólfi og fjölda báta, hvort það eigi til dæmis að vera ákveðinn grunnur í öllum hólfum en síðan viðbót og tekið tillit til þess hversu margir bátar eru í hverju hólfi. Í lok strandveiðitímabilsins í ágúst er svo hægt að deila þannig að menn brenni ekki inni með afla sem er ætlaður til strandveiða, hægt væri að deila því inn á hólfin til að allir gætu nýtt sér það. Telur hv. þingmaður að það ætti að vera einhver lágmarksgrunnur en svo tæki rest mið af því hversu margir bátar væru í hverju hólfi?