144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að mikið hefur verið kvartað vestur á fjörðum. Kannski er það líka tilkomið af því að það svæði hefur ekki uppsjávarfisk á sínu svæði og horft er til strandveiða sem góðrar búbótar miðað við það sem svæðið hefur misst frá sér.

Nú ætla ég að koma með alveg splunkunýja spurningu til hv. þingmanns og hún snýr að gagnrýni fiskmarkaða á það að afli af strandveiðum og byggðakvóta sé nú orðið mikið í beinum viðskiptum, það sé ákveðin tilhneiging til þess að þrýsta byggðakvóta og strandveiðiafla inn í bein viðskipti. Það hefur mikil áhrif á fiskmarkaði, sem ég held að við séum öll sammála um að við viljum sjá halda áfram að dafna og að til staðar sé markaður fyrir fiskvinnslur að versla við og bæta við hjá sér hráefni þegar þörf er á því. Hvað telur hv. þingmaður að hægt sé að gera í þeim efnum? Er hægt að stýra þessu á einhvern hátt eða er þetta eitthvað sem er einfaldlega orðið svona og þrýstingur frá fiskvinnslum í landi á að fá þetta hráefni til sín og líka frá þeim útgerðaraðilum, að það sé launað að landa þessu hjá ákveðinni fiskvinnslu, sem við höfum auðvitað talað fyrir? En það er ákveðin hætta ef þetta veldur því að fiskmarkaðir hörfa og missa frá sér mikið hráefni frá þessum hluta, þeim 5,3% sem þarna eru á ferðinni.