144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:52]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Eflaust eru þau til sem halda því fram að það sé við stjórnarandstöðuna að sakast að tafir verði á þinghaldinu en það vill svo til að við erum að ræða núna í kvöld lagafrumvarp sem allir eru sammála um að verði að fá umfjöllun Alþingis, lagafrumvarp sem kom fram frá ríkisstjórninni eftir að þinghaldi átti að vera lokið. Þetta er staðreynd. Ég held að menn hefðu getað náð samkomulagi í dag ef vilji væri til þess og værum við þá komin lengra í dagskránni en við erum núna.

Ég ætlaði ekki að fara í umræðu um það frumvarp sem nú er til umræðu en ég hef ákveðið að gera það vegna þess að ég mun ekki sætta mig við það (Forseti hringir.) að umræða um frumvarp um Stjórnarráð Íslands fari fram hér í skjóli nætur. Við höfðum fallist á (Forseti hringir.) að hefja umræðu um málið, framsögumaður meiri hluta og minni hluta. Ef það verður ekki upp á teningnum þá munum (Forseti hringir.) við ræða um fiskveiðimálið í alla nótt og til morguns. (BjG: Heyr, heyr!) (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

(Forseti (ÞorS): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)