144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:54]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er nú einhvern veginn orðið þannig að ef menn fá rólega stund yfir daginn þá þurfa þeir að finna eitthvert bölvað klúður, oft í byrjun dags og nú vilja þeir gera það í lok dags. Við erum búin að vera hér í allan dag að ræða áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamarks sem dregin er frá heildarafla, þ.e. svokallaðir pottar í fiskveiðistjórnarkerfinu. Þeirri umræðu hefur undið mjög vel fram og verið býsna fróðleg og margt nýtt komið fram í sambandi við þá umræðu sem er gott veganesti í atvinnuveganefnd.

Síðan á að fara að ræða hér Stjórnarráð Íslands, eitt af þeim frumvörpum sem sett eru fram um hugmyndir að forsætisráðherra sé bæði bæjarstjóri og forsætisráðherra, ef ekki forseti, og stjórni meira og minna með einokun. Það á að ræða fram á nótt. Það er kannski við hæfi. Er þá ekki vel við hæfi að hæstv. forseti óski eftir því að við séum ekki við umræðuna svo að menn fái að gera þetta í friði? Þetta er eintóm (Forseti hringir.) valdbeiting. Ég ætla að vona að menn hafi vitkast. Mér sýnist vera hreyfing hér í salnum (Forseti hringir.) og eitthvað sé að gerast því að þetta er alveg óþolandi (Forseti hringir.) framgangsmáti.