144. löggjafarþing — 116. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[00:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Vinnulag nefndarinnar er rakið í nefndarálitinu sjálfu og ég vísa til þess en með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands sem fela í sér almenna heimild ráðherra til að ákveða aðsetur undirstofnana og til að setja á fót starfseiningar og ráðuneytisstofnanir innan ráðuneytis. Lagt er til að við flutning stjórnarmálefna milli ráðuneyta skuli flytja fjárheimildir og starfsmenn milli ráðuneyta. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um heimild til flutnings á starfsfólki milli stjórnvalda án þess að störfin séu auglýst laus til umsóknar.

Einnig er lagt til að ávallt skuli vera starfandi ráðherranefndir um ríkisfjármál og efnahagsmál auk þess sem lagðar eru til breytingar á útfærslu á skyldum ráðherra til að bera mikilvæg stjórnarmálefni upp í ríkisstjórn og reglum um skráningu samskipta og funda. Þá er lagt til að ákvæði um skipun og starfrækslu samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna verði felld brott auk afleiddra breytinga á upplýsingalögum.

Nefndin fjallaði um frumvarpið á fundum sínum og þá sérstaklega um 1. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til almenn heimild ráðherra til að kveða á um staðsetningu stofnana sem undir hann heyra, nema á annan veg sé mælt í lögum. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að heimild ráðherra til að ákveða staðsetningu stofnana sem undir hann heyra sé eðlilegur hluti af stjórnunarheimildum ráðherra.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar í svokölluðu Landmælingamáli um að flutningur Landmælinga Íslands til Akraness hafi verið ólögmætur var lögfest almenn heimild ráðherra til flutnings stofnana sem undir hann heyra þótt tilteknar stofnanir skyldu vera í Reykjavík. Fram kemur að við síðustu endurskoðun á lögunum hafi ákvæðið fallið á brott en ekki getið um það í athugasemdum við frumvarpið og Alþingi hafi því ekki getað tekið afstöðu til breytingarinnar.

Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að ekki væri sjálfgefið að opinberar stofnanir væru staðsettar í Reykjavík, sérstaklega með hliðsjón af tækniþróun þar sem landfræðilegar staðsetningar og fjarlægðir hefðu minna vægi en áður. Þá komu fram sjónarmið um að ekki væri sjálfgefið að ráðherra gæti ákvarðað staðsetningu opinberra stofnana einhliða. Um væri að ræða mikilvægt atriði fyrir rekstur stofnunar og óvissa í þessum efnum kæmi niður á festu í lífi starfsfólks og gæti takmarkað möguleika opinberra stofnana í samkeppni um starfsfólk.

Einnig var bent á að niðurstaða Hæstaréttar í Landmælingamálinu væri ekki einungis byggð á 2. mgr. 13. gr. stjórnarskrárinnar heldur einnig á kröfum meginreglna stjórnsýsluréttar um ákvörðunartöku stjórnvalda, m.a. kröfum um undirbúning ákvarðana og að þær séu teknar á grundvelli málefnalegra sjónarmiða.

Meiri hlutinn telur að með hliðsjón af almennum stjórnunarheimildum ráðherra sé rétt að lögfest verði almenn heimild ráðherra til að ákveða staðsetningu opinberra stofnana. Meiri hlutinn telur engu að síður nauðsynlegt að við slíkar ákvarðanir verði að gæta að reglum um málefnalega stjórnsýslu og hann vísar í því sambandi til niðurstöðu umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar starfsmanna Fiskistofu vegna áforma um fyrirhugaðan flutning stofnunarinnar frá Hafnarfirði til Akureyrar.

Nefndin fjallaði einnig um 6. gr. frumvarpsins um skipulag ráðuneyta en þar er lagt til að heimilt verði að setja á fót sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir sem verði starfræktar sem hluti af ráðuneyti. Í athugasemdum kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að auka svigrúm við skipulagningu ráðuneyta með það að markmiði að ná fram hagkvæmni í rekstri og einföldun á stjórnkerfinu. Ein af meginniðurstöðum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008 að því er varðar stjórnsýsluna var sú að styrkja þyrfti ráðuneytin og mannauð þeirra. Sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir innan ráðuneyta væru því til þess fallnar að auka mannauð og þar með sérþekkingu og sveigjanleika til að bregðast við nýjum aðstæðum og verkefnum. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur mikilvægt að auka mannauð innan ráðuneyta og telur að breytingin sé vel til þess fallin og geti styrkt ráðuneytin faglega, m.a. með aukinni sérfræðiþekkingu.

Nefndin fjallaði einnig um b-lið 10. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um flutning opinberra starfsmanna í starfi. Um er að ræða útvíkkun á heimild í gildandi lögum sem tekur til flutninga starfsmanna milli ráðuneyta þannig að hún nái til flutninga á starfsmönnum milli annars vegar ráðuneyta og stofnana og hins vegar milli stofnana. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að fyrirhuguð breyting auki möguleika til að nýta mannauð og bregðast við tímabundnu álagi. Markmiðið sé ekki síst að veita starfsmönnum fleiri og fjölbreyttari tækifæri til aukinnar þekkingaröflunar og framþróunar í starfi og breytingin sé einnig líkleg til að stuðla að aukinni samvinnu ríkisaðila. Þá er bent á góða reynslu af flutningi starfsmanna milli ráðuneyta frá því að slík heimild var lögfest árið 2011 og að um sé að ræða eðlilega framlengingu á þeirri heimild. Í frumvarpinu er lögð áhersla á að lokaákvörðun um flutning milli stjórnvalda sé hjá starfsmanninum sjálfum.

Á fundum nefndarinnar var enn fremur fjallað um 4. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til sú breyting á 11. gr. laganna að í stað þess að kveðið sé á um skyldu til að halda skrá um formleg samskipti og fundi verði vísað til mikilvægra samskipta og funda. Til samræmis er í 10. gr. frumvarpsins lögð til breyting á 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga um að skrá eigi mikilvægar upplýsingar um samskipti stjórnvalda við almenning og önnur stjórnvöld með sama hætti og aðrar mikilvægar upplýsingar.

Fyrir nefndinni kom fram að nokkurt misræmi væri í framkvæmd á skráningu upplýsinga hjá ráðuneytum sem þyrfti að samræma. Þá komu einnig fram ábendingar um að mikilvæg samskipti, í stað formlegra samskipta, sé of matskennt hugtak sem gæti leitt til þess að ákvarðanir um skráð formleg samskipti og fundi kynnu um of að verða háðar duttlungum eða huglægu mati þeirra sem eiga að skrá. Um væri að ræða viðkvæmt efni þar sem of ítarlegar skilgreiningar gætu aukið líkur á því að mögulegt væri að sniðganga reglur um skráningu samskipta. Meiri hlutinn tekur undir ábendingar um að tryggja þurfi sem besta skráningu upplýsinga sem máli geta skipt og leggur því til að ákvæðið verði enn ítarlegra, þ.e. að færa skuli skrá um formleg samskipti og fundi, sem og óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg, milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.

Nefndin fjallaði um ákvæði frumvarpsins um siðferðileg viðmið þar sem gert er ráð fyrir því að sérstök samhæfingarnefnd verði lögð niður en að forsætisráðuneytið muni taka að sér verkefni hennar. Fyrir nefndinni kom fram að í ljósi reynslu af starfi nefndarinnar sé ekki lengur talin þörf á sérstakri lögbundinni nefnd til að sinna þessu hlutverki þótt mikilvægt sé að því verði áfram sinnt, m.a. til að tryggja að siðareglur þróist áfram eins og eðlilegt er. Meiri hlutinn tekur undir það og telur breytinguna eðlilega.

Í 7. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 21. gr. laganna um tilhögun á flutningum starfsmanna við flutning stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að markmiðið sé að tryggja að flutningur stjórnarmálefna hafi ekki í för með sér aukinn kostnað heldur flytjist með þeim fjármagn og, þar sem við á, stöðugildi. Í ákvæðinu er lagt til að viðkomandi ráðuneyti skuli gera með sér samkomulag um flutning fjárheimilda og starfsmanna milli ráðuneyta, en takist það ekki innan tveggja vikna frá því að forsetaúrskurður samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna er gefinn út skeri forsætisráðherra úr. Á fundum nefndarinnar kom fram að af fenginni reynslu sé nauðsynlegt að um það gildi skýrar reglur hver skeri úr um það.

Meiri hlutinn tekur fram að markmiðið með breytingunum sem lagðar eru til í frumvarpinu séu meðal annars að auka sveigjanleika framkvæmdarvaldsins til að skipuleggja störf sín betur, auka hagkvæmni og virkja mannauð auk breytinga sem þörf er talin á í ljósi reynslu frá því að ný lög um Stjórnarráð Íslands voru sett árið 2011.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

4. gr. orðist svo:

1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:

Færa skal skrá um formleg samskipti og fundi, sem og óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg, milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.

Að meirihlutaálitinu standa Brynjar Níelsson, Karl Garðarsson, Vigdís Hauksdóttir, Willum Þór Þórsson og Sigríður Á. Andersen.