144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Setning Smáþjóðaleikanna fór fram í gær að viðstöddu fjölmenni og það er óhætt að fullyrða að opnunardagskráin hafi lukkast mjög vel. Ég vil nota tækifærið hér, virðulegi forseti, og óska öllum sem standa að undirbúningi og skipulagningu leikanna til hamingju með góða byrjun og ósk um að leikarnir sjálfir verði í takt við opnunina þannig að keppendur og þátttakendur aðrir njóti leikanna til hins ýtrasta.

Lárus Blöndal, forseti Íþróttasambands Íslands, vakti í opnunaræðu sinni athygli á starfi og aðkomu hinna fjölmörgu sjálfboðaliða sem koma að undirbúningi, skipulagi og starfi við leikana og gera það að verkum að slík hátíð, slíkur stórviðburður, geti farið fram. Það minnti okkur á hvað það er sem drífur íþrótta- og tómstundastarf áfram á Íslandi og hvers virði það er, hversu mikilvægt það er fyrir okkur að virða sjálfboðaliðastarfið í verki og huga að því að svo geti orðið áfram. Það er alls ekki sjálfgefið. Heilsuvernd, barátta gegn offitu, almenn lýðheilsa og hreysti og forvarnastarf sem beinist að börnum og unglingum og fleiri verkefni mætti nefna, sem leyst eru af hendi og felast í ávinningi af skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

Ýmislegt er gert af hálfu hins opinbera til þess að styrkja sjálfboðaliðastarfið í íþróttahreyfingunni, en við getum gert betur. Ég hef í tvígang lagt fram og mælt fyrir máli þess efnis að verja og styrkja sjálfboðaliðastarfið og efla mannvirkjagerð í tengslum við það. Það mál dagar nú sennilega uppi í nefnd enn aðra ferðina eins og reyndar mörg önnur góð þingmannamál. Það finnst mér miður, virðulegi forseti.