144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Eldar Ástþórsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að hrósa ríkisstjórninni fyrir nýjar tillögur um skattalækkanir. Þó að enn eigi eftir að leggja þessar tillögur fyrir þingið fagna ég því að lækka eigi skatta á launafólk í landinu, en við eigum auðvitað enn eftir að sjá hvaðan þessir peningar eiga að koma. Skattalækkanir eru að mínu viti mun skynsamlegri leið til að bæta kjör fólks en að ríkið ráðstafi tugum milljarða í að greiða niður einkaskuldir ákveðinna einstaklinga í aðgerð sem virðist því miður ætla að skila mestu til þeirra sem eiga mest. (Gripið fram í.)

Þar sem ég tala undir liðnum störf þingsins langar mig að ræða aðeins um störf þingsins. Þar leyfi ég mér að spyrja: Getum við virkilega ekki gert betur? Ég hef bara verið hérna í nokkra daga og ég verð að segja að ég skil ekki hvernig þið getið unnið í þessu umhverfi. Starfsáætlun þingsins hefur verið felld úr gildi. Hér eru gerð hróp og köll að þingmönnum meðan þeir eru í pontu. Hér í þingsal svara þingmenn og ráðherrar fyrirspurnum og gagnrýni á þann veg að fyrri ríkisstjórn hafi verið svo slæm og tekið svo slæmar ákvarðanir. En fyrir mér og ég held mörgum öðrum er það bara engin afsökun. Það er engin afsökun fyrir eigin ákvörðunum og það er engin afsökun fyrir þeim starfsháttum sem viðhafðir eru hér á Alþingi.

Hér er rætt um „track changes-vinnubrögð“ í nefndum, m.a. í frumvarpi þar sem skipulagsvald er tekið af sveitarfélögum í landinu, sem er augljóslega sett fram hér á lokadögum þingsins til að skapa úlfúð. Við þurfum heiðarlegra og skilvirkara Alþingi. Við erum hér fyrst og fremst í þjónustu við landsmenn og við verðum hreinlega að sýna önnur og betri vinnubrögð.

Ég vil að lokum taka undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni um að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir almenningi.