144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og yfirferðina yfir þetta mál og það sem fram kom í vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Í frumvarpinu er atriði sem er um að setja megi upp sérstaka stofu eða sérstaka skrifstofu í ráðuneytum til að taka stjórnsýsluákvarðanir og inn í það blandast í vinnu nefndarinnar og einnig í máli hv. þingmanns úrskurðarnefndir, fjöldi þeirra og hvort færa eigi þær inn í ráðuneytin líka.

Virðulegi forseti. Nú er það svo að fyrirkomulag stjórnsýslunnar er náttúrlega ekki bara fyrir embættismenn eða þá sem vinna þar. Auðvitað þarf að taka tillit til allrar hagkvæmni í því, en stjórnsýslan snýst ekki um það. Stjórnsýslan snýst um fólkið og fólkið sem þarf að nota stjórnsýsluna og fá afgreidd mál sín. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort það sé álit hans að þessi nýja tilhögun sem á nú að taka upp í viðbót við sjálfstæðar stjórnsýslustofnanir og þar fram eftir götunum geri stjórnsýsluna gagnsærri og betri fyrir fólkið í landinu að nota hana og að þetta verði allt opnara og skiljanlegra fyrir þá sem ekki eru inni í frumskógum embættismannakerfisins.