144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um það að auðvitað þarf að gæta að fjármagni í rekstri hins opinbera og í rekstri stjórnsýslunnar og reyna að komast af með það. En að mínu mati má það hins vegar ekki vera á kostnað trausts á stjórnsýslunni og að fólkið í landinu geti rekið sín erindi gagnvart stjórnvöldum eins og vera ber. Það hefur mikið verið rætt um úrskurðarnefndir og ég vil segja það að mér finnst menn ekki alveg hugsa út í það að það var náttúrlega ný hugsun á sínum tíma, pólitísk hugsun í því að hafa sérstakar úrskurðarnefndir. Það er til þess að hafa það sem kallað er, sem mér finnst óskaplega leiðinlegt orð en er notað mikið þessa dagana, „armslengd“. Ég er alltaf að reyna að hugsa upp eitthvert nýtt orð um þetta, virðulegi forseti, mér finnst þetta svo leiðinlegt orð. En þetta var náttúrlega hugsunin. Nú eru menn að hugsa um að breyta þessu og jú, það er út af fyrir sig ekkert að því að breyta, það er ekkert að því að snúa einhverju við og breyta í það sem fyrir var. En mér finnst við þurfa að hugsa aðeins um það.

Mig langar líka til að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um siðareglurnar af því að það kom fram í bréfi umboðsmanns Alþingis eftir lekamálið svonefnt að það væri ekki alveg klárt hvort til væru siðareglur fyrir ríkisstjórnina eða ekki. Það er á ábyrgð forsætisráðuneytisins. Finnst hv. þingmanni það gefa forsætisráðuneytinu þá einkunn að það sé gott,(Forseti hringir.) að það eigi að fylgjast með því að reglur hjá ríkinu séu í heiðri hafðar?