144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:31]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar og þessar vangaveltur. Ég er alveg sammála því að auðvitað megum við ekki fórna þessari víðfrægu armslengd, hún er mjög mikilvæg í stjórnsýslunni. Til þess að koma í veg fyrir allan vafa um ákvarðanir, hvað stjórnvöld eru að gera hverju sinni, þá verðum við að sjá til þess að sú armslengd sé fyrir hendi.

Hins vegar liggur fyrir að hægt er að einfalda stjórnkerfið til muna. Og eitt af því sem er svo mikilvægt í því þegar við endurskipuleggjum stjórnkerfið að við erum ekki bara að hugsa um peningaþáttinn, þ.e. að við getum sparað peninga á því, heldur að gera kerfið allt saman einfaldara og þar með veiti það betri þjónustu, þægilegri og einfaldari fyrir allan almenning. Það skiptir verulegu máli. En armslengdin skiptir miklu máli, þ.e. að fólk geti treyst því að þær ákvarðanir sem eru teknar séu réttar, heiðarlegar og sanngjarnar.

Varðandi siðareglur fyrir ríkisstjórnir þá hef ég mjög einfalda skoðun á því. Nú er gert ráð fyrir því að hver ríkisstjórn fyrir sig setji sér siðareglur. Ég átta mig mjög illa á slíku ákvæði almennt séð, ég tel að það eigi að vera sömu siðareglur fyrir allar ríkisstjórnir, mér er alveg sama hvað þær heita eða hvaða flokkum þær tilheyra. Siðareglur eiga að vera þær sömu fyrir allar ríkisstjórnir þannig að það eigi ekki að vera settar nýjar siðareglur, ný viðmið, ný markmið í hvert skipti sem ný ríkisstjórn kemur.