144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:35]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Varðandi fyrsta atriðið sem hún minntist á um að ákvæðið hafi fallið brott í síðustu lögum var alla vega ekki útskýrt í frumvarpinu af hverju það gerðist, það lá ekki fyrir í opinberum plöggum af hverju það var tekið út í síðustu lögum og skýringar hafa ekki legið fyrir til þessa.

Hvað varðar aðkomu Alþingis að flutningi stofnana breytir þessi almenna heimild ráðherra því ekki að Alþingi getur ávallt ákveðið með lögum, eins og ég sagði áðan, hvar stofnun skuli staðsett. Fellur þá heimild ráðherra niður, eins og mælt er fyrir um í ákvæðinu. Í raun getur Alþingi gripið inn í. Þar að auki hefur Alþingi náttúrlega fjárveitingavaldið, gleymum því ekki.

Ég tel að þetta ákvæði, hin almenn heimild ráðherra sé til góðs, stjórnsýslan verður mun betri, það er hægt að taka ákvarðanir betur. Menn verða náttúrlega að hafa málefnaleg sjónarmið þegar þeir ætla sér að flytja stofnanir og það má ekki brjóta allar stjórnsýslureglur þegar þeir gera það. En ég tel að heimildin sé nauðsynleg, hún sé góð og Alþingi getur í raun, og hefur þar að auki fjárveitingavaldið, stoppað slíkt ef það vill.