144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:39]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Við erum flest sammála um að sveigjanleiki sé nauðsynlegur upp að ákveðnu marki, þ.e. að hægt sé að hreyfa starfsfólk til. Ég held að það gildi ekki aðeins um einkafyrirtæki heldur líka um ríkið. Þarna er gert ráð fyrir því að ekki sé einungis hægt að færa menn milli ráðuneyta heldur einnig milli stofnana, eins og hv. þingmaður segir réttilega.

Ég held að sá hreyfanleiki sé mjög mikilvægur. Auðvitað má færa ákveðin rök fyrir því að staða starfsmanna til að neita sé ekki eins sterk og hún þyrfti að vera. Við skulum þó ekki gleyma því að starfsmannalögin eru mjög sterk og veita starfsmönnum ríkisins ríka vernd. Sú vernd er reyndar svo rík að ég held að hún verndi starfsmenn mjög vel komi til þess að þeir vilji ekki og hafi ekki áhuga á að skipta um starfsvettvang.. Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af því þegar á reynir. Ég held hins vegar að þetta sé til mikilla bóta fyrir ríkið, það sé til mikilla bóta fyrir viðkomandi starfsmenn að geta hugsanlega átt starfsframa á öðrum stöðum innan ríkiskerfisins sem þeir hafa áhuga á að starfa á. Ríkiskerfið er stórt og mikið og þetta eru margar stofnanir og ólíkar, ekki bara ráðuneyti, þannig að ég held að þetta opni á mjög góða möguleika fyrir starfsmenn til að skapa sér nýjan starfsvettvang. Ég held að á heildina litið sé þetta mjög jákvæð þróun.