144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:39]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðu hennar. En það eru ólík sjónarmið sem togast á í því máli sem hér er til umfjöllunar. Annars vegar hæfni og geta þeirra sem fara með völd í landinu hverju sinni að skipuleggja sín störf, sínar áherslur, koma stefnu sinni í framkvæmd, og þá sé innbyggður í kerfið ákveðinn sveigjanleiki þannig að menn geti náð markmiðum sínum. Á hinn bóginn er það síðan framkoma við þær stofnanir sem heyra undir ríkið.

Í þessu frumvarpi er verið að gera ríkisstjórninni og forsætisráðherra kleift að flytja til stofnanir án þess að slíkar ákvarðanir komi til umfjöllunar í þinginu. Ég var reyndar á meðan hv. þingmaður var að flytja sína ræðu að skoða ræður hæstv. forsætisráðherra frá síðasta kjörtímabili um einmitt breytingar á Stjórnarráðinu og það er athyglisvert að sjá að fátt efnislegt úr þeim ræðum hefur ratað inn í frumvarp ráðherra núna. En alveg burt séð frá þá held ég að við hv. þingmaður séum alveg sammála um það að með fyrirætluðum flutningi á Fiskistofu og þeirri aðferð hefði mátt koma betur fram við starfsfólk og menn hefðu fengið að vita betur í aðdragandanum hvað stæði fyrir dyrum og menn ynnu þetta í samstarfi við starfsfólkið, en mig langar að spyrja hvort hún telji ekki að það sé nauðsynlegt að vera með innbyggðan ákveðinn sveigjanleika í kerfið þannig að hægt sé að gera breytingar.