144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:50]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Aðhaldshlutverk Alþingis; það er kannski það sem mér finnst sem hér sé tekið í burtu og ég ræddi svolítið um. Hvað vantar til þess að ferlið verði farsælt, eins og hér var nefnt með Fiskistofu eða annað? Ég hef tekið Menntamálastofnun sem dæmi þó að þar sé í raun verið að sameina tvær stofnanir og búa til stjórnsýslu, það er ekki verið að taka heila stofnun upp og flytja hana á annað landsvæði. Það er fyrst og fremst þetta samráð og samvinna og undirbúningur og samtal sem á sér stað á röngum tímapunkti, virðist vera, hjá ríkisstjórninni.

Ég hef alltaf haft trú á því að það sé af hinu góða — af því að hér ræddum við um að ná fram pólitískum markmiðum sínum, hvernig maður gæti best gert það — að vera með málið mjög vel undirbyggt og hafa rætt það við þá sem að málinu koma. Það hlýtur að verða til þess að árangurinn og niðurstaðan verða betri.

Varðandi hreyfanleika starfsfólks innan Stjórnarráðsins þá eru skiptar skoðanir um þetta, þ.e. hvort auglýsa beri allar stöður eða hvort þessi hreyfanleiki eigi að vera meiri en hann er í dag. Ég rak augun í að í meirihlutaálitinu stendur, með leyfi forseta:

„Heimilt hefur verið að færa embættismenn ríkisins milli embætta allt frá lýðveldisstofnun og reynslan af þeirri heimild sem var lögfest árið 2011 þykir góð og því telur meiri hlutinn eðlilegt að útvíkka hana.“

Í minnihlutaálitinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Í umsögnum til nefndarinnar kemur fram gagnrýni á ákvæðið frá fulltrúum launþega. Hún felur meðal annars í sér að reynsla af flutningum starfsmanna samkvæmt gildandi lögum sé ekki góð …“

Á einum og sama fundinum situr fólk og túlkar hlutina með algerlega öndverðum hætti.