144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það má segja að með þessum lagabreytingum sé verið að fara í átt sem mér hugnast ekki. Það er verið að færa vald í hendurnar á einstökum ráðherrum sem í mínum huga er ekki til bóta því að það þýðir minna samráð, minna gagnsæi, minna aðhald.

Ég er mjög hlynnt því að við færum meira vald til Alþingis. Ég tel það vera farsælustu leiðina í stjórnsýslunni. Ég vil ekki færa meira vald í hendur einstaklinga sem eiga að framkvæma vilja Alþingis — því hefur reyndar algerlega verið snúið við og almennt framkvæmir Alþingi vilja framkvæmdarvaldsins. Það er ekki bara stjórnsýslan á Íslandi sem býr við þann veruleika heldur stjórnsýsla víðs vegar um heim. Lýðræðið okkar er orðið mjög veikburða, það er lítið traust. Í nýrri könnun, frá því í dag, kom fram að fólk treystir okkur ekki til að hafa velferð almennings að leiðarljósi. Mér finnst það áfellisdómur fyrir okkur hér á þinginu og táknrænt að mörgu leyti að við séum að fjalla um þetta mál á sama tíma og traustið er orðið svona lítið. Við þurfum virkilega að gera upp við okkur hvernig stjórnsýslu við búum við og mér finnst þetta ekki vera rétta leiðin að hlutunum.

Ég get tekið undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að einfalda stjórnsýsluna og hafa flækjustigið sem minnst. Það sem við höfum séð af framkvæmdum stórra aðgerða, sem oft eru byggðar á geðþóttaákvörðunum einstaklinga, þá hefur þeim ekki farnast vel. Við þurfum ekki að leita mjög langt aftur í söguna til að sjá alla katastrófuna í kringum framkvæmdina á flutningi á Fiskistofu; gríðarlega mikill mannauður hefur glatast, starfsmenn hafa þurft að fá áfallahjálp út af því hvernig sú framkvæmd hefur verið. Hún er til háborinnar skammar, ég verð bara að segja það og okkur ekki til sóma. Ég hef mikla samúð með fólki sem á að flytja hreppaflutningum án nokkurrar samvinnu eða samráðs; það er hægt að flytja vinnu á milli landshluta, og stofnanir á vegum hins opinbera, en það þarf að gera það rétt. Og allt í kringum þetta mál er rangt, það er bara þannig, það vita allir sem hafa kynnt sér það.

Mig langar að beina sjónum okkar að okkur hér á þingi. Viljum við, þegar við erum kosin hingað til að vera fulltrúar í fulltrúalýðræði, axla þá mikilvægu ábyrgð sem því fylgir með því að finna leiðir til að tryggja að framkvæmdarvaldið hafi ekki allt vald? Þetta frumvarp er ekki í þá átt og er í engu samræmi við þá þingsályktun sem Alþingi samþykkti hér einróma, um það hvað við ætluðum að læra af aðdraganda og eftirmálum hrunsins. Frumvarpið kemur mér þess vegna spánskt fyrir sjónir, og er eins konar viðbragðafrumvarp við ástandinu sem ríkti þegar flytja átti Fiskistofu til Akureyrar.

Mig langar ekki bara að vera leiðindaskjóða, mig langar að hrósa nefndinni, og þá sér í lagi meiri hluta hennar, fyrir að hafa tekið með ábendingar um lið sem lítið hefur verið fjallað um í frumvarpinu, það er í 11. gr. og er um skráningu upplýsinga; eitthvað sem ég og félagar mínir hjuggum sérstaklega eftir og fengum í gegn að yrði leiðrétt. Mig langar að lesa upp breytingartillöguna frá meiri hlutanum um það og á sama tíma þakka fyrir að tekið var tillit til þess að greinilega var um mistök að ræða þegar sú lagabreyting átti að eiga sér stað, um skráningu upplýsinga.

„Á fundum nefndarinnar var einnig fjallað um 4. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til sú breyting á 11. gr. laganna um að í stað þess að kveðið sé á um skyldu til þess að halda skrá um formleg samskipti og fundi verði vísað til mikilvægra samskipta og funda. Til samræmis er í 10. gr. frumvarpsins lögð til breyting á 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga um að skrá eigi mikilvægar upplýsingar um samskipti stjórnvalda við almenning og önnur stjórnvöld með sama hætti og aðrar mikilvægar upplýsingar.

Fyrir nefndinni kom fram að nokkurt misræmi væri í framkvæmd á skráningu upplýsinga hjá ráðuneytum sem þyrfti að samræma. Þá komu einnig fram ábendingar um að mikilvæg samskipti, í stað formlegra samskipta, sé of matskennt hugtak sem gæti leitt til þess að ákvarðanir um skráð formleg samskipti og fundi kynnu um of að verða háðar duttlungum eða huglægu mati þeirra sem eiga að skrá. Um væri að ræða viðkvæmt efni þar sem of ítarlegar skilgreiningar gætu aukið líkur á því að mögulegt væri að sniðganga reglur um skráningu samskipta. Meiri hlutinn tekur undir ábendingar um að tryggja þurfi sem besta skráningu upplýsinga sem máli geta skipt og leggur því til að ákvæðið verði enn ítarlegra, þ.e. að færa skuli skrá um formleg samskipti og fundi, sem og óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg, milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess. “

Ég fagna mjög þessari tillögu og ég vildi óska þess að maður gæti bara haft frumvarp með nákvæmlega þessum breytingum á þessari grein og tekið út fyrir sviga með öllu hinu málinu það sem mér finnst miklu viðameira; frumvarpið fjallar um eitthvað allt annað en þá litlu anga sem maður finnur inni í því. Það leiðir hugann að lögum svona yfir höfuð. Það er magnað hve lög eru skrifuð á torkennilegu tungumáli. Maður var að vonast til að breyting yrði þar á eftir hrun. Við búum í landi þar sem er bókstafstrú á lög og sjaldan er litið til anda laganna; það var eitt af gagnrýnisefnum rannsóknarnefndar Alþingis um hrunið. Lög þurfa að vera þannig að fólk skilji þau, það er mjög mikilvægt og það á ekki bara við um lögfræðinga heldur líka almennt. Það er ekki svo í dag. Þessi litli bútur sem ég las upp úr nefndaráliti meiri hlutans, og það er líka skrifað þannig í nefndaráliti minni hlutans — það er rosalega leiðinlegt og allt of þunglamalegt orðalag í þessum lögum okkar. Við ættum þess vegna að hafa þau í ferskeytlum frekar en að hafa þau þannig að enginn skilji þau almennilega, þeir sem eiga að fara eftir þeim. Það gleymist oft.

Hverjir eiga að fara eftir lögunum okkar? Það er fólkið í landinu. Lögin eru ekki bara skrifuð fyrir lögfræðinga, við skulum ekki gleyma því. En ég hefði þó gjarnan viljað hafa hér með okkur, í þessum umræðum um frumvarp forsætisráðherra, forsætisráðherrann sjálfan. Ég hefði svo gjarnan viljað hafa hann hér til að fjalla um það hvernig forsætisráðherra hyggst tryggja, ef honum er falið svona mikið vald sem hann ákveður að hann vilji hafa, samráð og samvinnu um svo mikilvæga hluti sem framtíðarskipan ýmissa opinberra stofnana er. Mér finnst mjög leiðinlegt, og lagði til hér, forseti, þegar þetta mál kom á dagskrá — þegar atkvæði hafa verið greidd um það hér í þingsalnum, eftir langa fundi o.s.frv. — að okkar ástkæri forsætisráðherra yrði hér með okkur og tæki þátt í umræðunum. Ég hef ekki séð hæstv. ástkæran forsætisráðherra í þingsal í umræðum um þetta mál í dag. Mig langar að beina því til forseta að almennt, þegar við erum að fjalla um mál sem koma frá ríkisstjórninni, sé sá fagráðherra sem leggur málið fram hér í þingsal til að taka þátt í andsvörum. Mér finnst það eiga að vera grundvallarvinnulag á vinnustað sem hefur svona lítið traust. Við þurfum að laga það og við lögum það með því að eiga í hreinskiptnum og eðlilegum samræðum um mál.

Það mál sem við höfum hér til umfjöllunar er þess eðlis að það er lagt fram ofan í mjög umdeildar ákvarðanir; ákvarðanir voru teknar af tilteknum hæstv. ráðherra um að flytja opinbera stofnun hinum megin á landið áður en til þessarar tillögu að lagabreytingum kom. Mér finnst þetta vera skref aftur á bak og mér finnst það umhugsunarefni að þingmenn meiri hlutans styðji frumvarpið. Ég hélt að þingmenn meiri hlutans væru lýðræðissinnar og að þeir væru þingræðissinnar en það endurspeglast ekki í frumvarpinu.

Ég hef í sjálfu sér ekkert rosalega miklu við þetta að bæta nema ég var á áliti minni hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þetta mál. Mig langar að lesa álitið upp svo að því sé haldið til haga sem þar kom fram. Ég ætla ekki að lesa það allt en mig langar til að fara yfir það sem við lögðum mesta áherslu á og það er þá heimild ráðherra til flutnings stofnana.

„Minni hlutinn telur að við endurskoðun eldri laga um Stjórnarráð Íslands og setningu gildandi laga hafi í reynd verið tekin ákvörðun um að fella brott ákvæði um almenna heimild ráðherra til að kveða á um aðsetur stofnana sem undir hann heyra. Fyrir liggur að aðsetur skiptir miklu máli þegar stofnun hefur fest rætur á ákveðnu svæði, hvort sem litið er til starfsemi eða starfsmanna. Þá hefur þetta áhrif á samkeppnishæfni stofnunar um starfsfólk. Annað gildir þegar komið er á fót nýrri stofnun sem ekki er byggð á sameiningu stofnana eða eldri stofnunum þótt ætíð þurfi að sjálfsögðu að byggja á skýrum málefnalegum rökum.“

Ég velti fyrir mér, forseti: Þessi skýru og nauðsynlegu málefnalegu rök, hvar munu þau koma fram? Munum við geta kallað þetta inn í þingið eða getur ráðherra gert þetta án nokkurrar aðkomu Alþingis? Mér er þetta ekki alveg ljóst og ég vona að hv. þm. Brynjar Níelsson, þegar hann kemur hér í andsvar við mig, geti jafnvel svarað þessari spurningu sem ég velti hér upp. Getur ráðherra einn og óstuddur og án nokkurrar aðkomu þingsins tekið ákvörðun um að flytja stofnanir á milli landshluta?

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn tekur undir sjónarmið sem fram koma í umsögnum um að ákvörðun sem ráðherra kynnti um flutning Fiskistofu sýni fram á mikilvægi þess að aðsetur stofnana eigi að vera ákveðið með lögum. Fyrir liggur að mikil þekking hefur þegar glatast þar sem margir starfsmenn hafa hætt. Þá getur óvissa um staðsetningu stofnunar einnig haft áhrif á möguleika til að ráða hæfa starfsmenn.“

Þetta er það sem ég hef aðeins fjallað um í ræðu minni.

„Minni hlutinn telur að heimild til handa ráðherra til að flytja stofnanir að eigin geðþótta án málefnalegs rökstuðnings, fjárhagslegrar og faglegrar úttektar sé óeðlilegt framsal á valdi löggjafans. Heimildin er til þess fallin að styrkja framkvæmdarvaldið á kostnað löggjafarvaldsins og telur minni hlutinn varhugavert að stuðla að slíkri þróun þegar reynslan sýnir að ætíð sé nauðsynlegt að takmarka vald framkvæmdarvaldsins.“

Þetta er einmitt það sem mér finnst svo skringilegt að Sjálfstæðisflokkurinn geti tekið undir. Mér finnst það mjög skringilegt. Þetta er einhvern veginn ekki alveg í samræmi við það sem ég hélt að Sjálfstæðisflokkurinn stæði fyrir. En ég ætla að láta þessari ræðu minni lokið. Ég hlakka til að heyra meira um málið. Mér finnst það í sjálfu sér frekar einfalt en langar til að heyra fleiri sjónarmið og rökstuðning frá þingmönnum meiri hlutans sem og frá okkar ástkæra forsætisráðherra.