144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:12]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur ræðu hennar. Mig langar til að vitna í ræðu sem hæstv. forsætisráðherra, þáverandi þingmaður í stjórnarandstöðu, flutti um sama mál í maí árið 2011. Tilvitnun hefst, með leyfi forseta:

„Ég held að við þurfum að skoða málið frá grunni, leggja það til hliðar og vinna að breytingum á Stjórnarráði Íslands í sátt og samlyndi, reyna að ná sem víðtækastri samstöðu og að ríkisstjórnin sýni að henni sé alvara með öllum þessum yfirlýsingum sem til þessa hafa reynst innihaldslausar. Hún fær tækifæri núna til að sýna að einhver alvara sé að baki þegar menn segja að þeir vilji ná samstöðu um málið. Ef ekki í þessu máli hvenær þá? Með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands ætti að sýna gott fordæmi en ekki að samþykkja illa unnið frumvarp um að efla framkvæmdarvaldið á kostnað löggjafans. Þvert á móti á að sýna gott fordæmi með vel unnu frumvarpi sem styrkir lýðræðið og eflir stöðu löggjafans á kostnað framkvæmdarvaldsins.“

Þetta er ræða sem ég hefði vel getað flutt og get alveg tekið undir hvert orð. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Kannast hún við að eitthvað svona hafi gerst áður en þetta frumvarp var lagt fram?