144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:15]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að ferðast aftur til maímánaðar 2011 og grípa enn niður í ræðu þáverandi hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, núverandi hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Það er gamalkunnug setning að vald spilli og að algjört vald spilli algjörlega og því er þetta frumvarp einmitt svo mikið áhyggjuefni. Vegna þess að þegar valdinu er þjappað saman á einn stað er það ekki til þess fallið að draga fram það góða í viðkomandi heldur miklu frekar að ýta undir hið neikvæða.“

Auðvitað er hvimleitt að verða vitni að því sem ekki er hægt að kalla neitt annað en hræsni og hún er hróplega sýnileg í þessu máli þegar menn hafa gengið fram af mikilli hörku og óbilgirni og gagnrýnt aðra fyrir það sem þeir koma síðan hingað með og gera svo augljóslega sjálfir.