144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að ræða við hv. þm. Birgittu Jónsdóttir í þessu fyrra andsvari mínu um 1. gr. þessa frumvarps. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum.“

Þetta hefur stundum gengið undir nafninu fiskistofuákvæðið.

Nú eru hér önnur lög um almannatryggingar sem einnig liggja fyrir Alþingi en þar er einmitt ákvæði um að fella skuli ákvæðið um aðsetur Tryggingastofnunar úr lögunum og færa það til ráðherra að geta ákveðið staðsetningu hennar.

Ég benti á það í andsvari fyrr í dag að það er mjög mikilvægt að stofnun eins og Tryggingastofnun sé miðsvæðis og vel tengd, til dæmis almenningssamgöngum, enda er þar um að ræða hóp sem er kannski líklegri en margir aðrir hópar til að vera ekki á einkabíl. Ég hef þá nefnt staðsetningu Sjúkratryggingastofnunar Íslands sem dæmi um stofnun sem er mjög illa staðsett fyrir þá sem ekki eru á bíl.

Mig langar að nota þessa opnun til að spyrja hv. þingmann út í það hvort hún telji að þessi 1. gr. frumvarpsins sé líkleg til að ýta undir illa ígrundaðar ákvarðanir, eða hreinlega geðþóttaákvarðanir, þegar kemur að því að ráðherra hverju sinni fari að hlutast til um það hvar stofnanir eigi að vera staðsettar.