144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birgittu Jónsdóttur verður tíðrætt um valdframsal, að hér sé um mikilvægt vald að ræða, að ákveða hvar stofnun er staðsett. Ég held að hvorugt sé eiginlega rétt. Stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að ráðherra framkvæmi allar stjórnarathafnir og beri ábyrgð á þeim. En hann framkvæmir auðvitað ekki meira en lagaheimild stendur fyrir. Það að taka ákvörðun um staðsetningu telst ekki mjög mikilvægt vald. Ráðherra tekur miklu stærri og meiri ákvarðanir, sem hafa miklu meiri áhrif á réttindi og skyldur borgara, en nokkurn tíma hvar ein stofnun er staðsett.

Við höfum þessa skiptingu og ég tel að hún sé mikilvæg og að tala um valdframsal í þessu sambandi held ég að sé rangt orð. Alþingi ákveður auðvitað hverju sinni hvað það ætlar að takmarka vald ráðherra mikið. Ráðherra hefur almennt þetta vald að ráða fólk, reka fólk, skipuleggja stofnanir, breyta þeim. Við getum takmarkað það með því að ákveða sjálf hvar stofnunin er staðsett. Það er það sem skiptir máli. En eðlilegt er að ráðherra hafi allt það vald sem hann á að hafa nema að því leyti sem við takmörkum það. En þegar ráðherra ákveður að flytja stofnun þá getur hann ekki gert það eftir eigin geðþótta vegna þess að um það gilda ýmis lög.

Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann sé ekki sammála mér í því að um þetta gilda stjórnsýslulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna, sem þarf að líta til þegar menn taka ákvörðun af þessu tagi.