144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:26]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Samkvæmt þeim skilgreiningum sem komu fram í máli hv. þingmanns er alveg ljóst — og mig langar þá að spyrja til baka hvort þingmanninum þætti þá ekki eðlilegast að öll lög og öll upptök laga ættu að eiga sér stað á Alþingi en ekki hjá framkvæmdarvaldinu því að framkvæmdarvaldið eru þeir sem eiga að framkvæma vilja Alþingis. Af hverju er það þannig að við fáum einhver lög, einhverja lagatexta eins og þennan?

Þetta á ekki uppruna sinn á Alþingi. Þetta er skrumskæling á lýðræðinu, alger skrumskæling á lýðræðinu. Við eigum að skrifa lögin og segja framkvæmdarvaldinu hvað það á að gera. Þeir eiga ekki að sitja hérna eins og einhverjir lordar og vera þingmenn um leið og þeir eru ráðherrar. Þetta er alger skrumskæling á lýðræðinu.

Ef það er svo, sem hv. þingmaður segir hér, að framkvæmdarvaldið sé vald sem framkvæmir vilja Alþingis þá eiga lögin að eiga sér grunn og upphaf á Alþingi og við eigum að vita hver skrifar hvað í lögunum. Það væri eðlileg stjórnsýsla.