144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki farið að ræða um lýðræðið hér á einni mínútu, það er kannski flókið. Ég lít ekki svo á að það skipti máli hver semur frumtextann að lögum. Alþingi setur lögin, Alþingi ákveður á endanum hvað í þeim stendur, sama hver skrifaði upphafið. Ég veit allt um það.

Segjum svo að ráðuneytið skrifaði engan texta og þetta væri allt gert á Alþingi. Ekki heldur hv. þm. Birgitta Jónsdóttir að allir þingmenn skrifuðu það sjálfir? Nei, það yrðu auðvitað starfsmenn hér. Það gerist auðvitað þannig að við ákveðum á endanum innihaldið, Alþingi ákveður það. Því verður aldrei breytt þannig að ég held að út af fyrir sig sé þetta hártogun.

En af því að hv. þingmaður sagði líka að það væri erfitt að skilja lögin, ég held að það sé ekkert erfitt að skilja lögin og það þarf ekkert að setja þau í ferskeytlu til að skilja þau betur. Ég held að menn þurfi bara einfaldlega að lesa þau, hafa fyrir því að lesa þau, með þeim lögskýringargögnum sem til eru, með þeim greinargerðum, þá er þetta auðskilið öllum.