144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er svolítið sérstakt en merkilegt að hv. þingmaður skilur ekki að hann er kominn í paradox við það sem hann var að segja rétt áðan.

Í fyrsta lagi: Ef lögin ættu uppruna sinn og væru skrifuð á Alþingi þá værum við með þverpólitíska vinnu í að leggja drögin, hvert við ætlum að stefna með þetta samfélag. Þá komumst við út úr þessum átakalínum sem eru að rústa samfélaginu. Þá vissum við líka nákvæmlega hver skrifar hvað og við mundum hafa gagnsæi um það, um hvaða hluti laganna er skrifaður hvar. Því er ekki að heilsa með lög sem skrifuð eru í ráðuneytunum, það er ekki alveg ljóst hver ráðleggur hvað um hvernig lögin eru skrifuð. Auðvitað ætti að vera algert gagnsæi með það. Oft koma hagsmunaaðilar að því að skrifa flókna lagatexta, mjög flókna lagatexta, sem heilu hjarðirnar af lögfræðingum geta nýtt sér til að fara á svig og inn á grá svæði laganna.

Ég vildi að ég hefði meira en mínútu til að svara hv. þingmanni.