144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Honum var tíðrætt um sveigjanleika og skilvirka starfsemi ríkisstofnana og embættiskerfisins. Ég held að við viljum öll að ríkisbáknið sé eins skilvirkt og mögulegt er. Samt sem áður er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að vera ákveðið jafnvægi þar þá milli, skilvirknin megi ekki vera í fyrirrúmi vegna þess að það eru aðrir þættir sem eru mjög mikilvægir í stjórnsýslunni, sem eru traust og ábyrgð og trú fólksins í landinu, fólksins sem þarf að nota stjórnsýsluna, á það að hún sé rétt og sanngjörn. Hún skiptir miklu máli og verður ekki metin til peninga.

Hv. þingmaður fór rækilega yfir 1. gr. frumvarpsins og segir að umsagnir séu litaðar af Fiskistofumálinu svokallaða, sem það vissulega er, og síðan rekur hann það hvílík sorgarsaga það var allt saman, sorgarsaga fyrir fólkið sem hefur þurft áfallahjálp og fjölskyldur sem hafa verið áhyggjufullar í allan vetur og fyrir ráðherrann sjálfan sem ákvað þetta og hefur svo í kjölfarið sagt að hann hafi ekki farið rétt að.

Lykilatriðið í því öllu er að það var ekki lagaheimild fyrir bægslaganginum og ruglinu öllu saman. Dettur þingmanninum í hug að þetta hefði verið eitthvað betra fyrir starfsmennina og þá sem hlut áttu að máli ef lagaheimildin hefði verið fyrir hendi, hefði angist fólksins orðið minni ef það hefði verið alveg skýrt að ráðherrann gæti gert þetta og fólkið hefði átt að flytja á þremur mánuðum? Hefur hann trú á því að þetta ákvæði breyti einhverju þar um og geri stjórnsýsluna og mannauðsstjórnina betri en hún er í dag?