144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er líkt komið á með okkur hv. þingmanni þar sem við erum væntanlega líkt upp alin og við erum eins upp alin, heyrist mér, að því leytinu til að við erum alin upp við að ábyrgð fylgi valdi og ábyrgð og vald fari saman. Það er vegna þess að mannskepnan er þannig að hún er gjörn á að fara út af sporinu og sérstaklega þegar hún hefur mikil völd. Við höfum séð það hér á undanförnum árum, við sáum það á árunum fyrir hrun og sjáum í dag hvað sumum virðist erfitt að fara með vald án þess að fara út af sporinu. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að alveg klárt sé í lögum að það sé ekki á hendi eins manns eða konu að ákveða hvar stofnanir eigi að vera staðsettar. Það er mitt viðhorf til þess lagafrumvarps.