144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:02]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að það þarf að vera sveigjanleiki inni í stofnunum. Ég hef til dæmis ekkert sérstaklega á móti því að hægt sé að færa starfsfólk á milli ráðuneyta. Auðvitað er það bara gott. Það verður kannski aukin þróun og meiri hreyfanleiki verður og fólk öðlast meiri reynslu og þekkingu. Það er mikil þekking til í íslenskri stjórnsýslu. Gerðar voru breytingar á Stjórnarráðinu árið 2011 sem miðuðu að því að reyna að minnka ráðherraræðið og gera þinginu kleift að rækja umræðuhlutverk sitt betur. Það finnst mér vera lykilatriði. Eins og kom berlega í ljós í þessu margumrædda fiskistofumáli, það var nú meira rosalega klúðrið sem hefði kannski átt að fá okkur til að hugsa enn betur um að setja reglur sem heftu það að ráðherrar gætu farið svona með vald sitt, en nákvæmlega eins og þingmaðurinn kom inn á hafði þetta mjög slæm áhrif og núna eftir þá ákvörðun liggur nánast ein stofnun í rúst, þrátt fyrir að mikil rústabjörgun sé í gangi núna. En mér finnst í frumvarpinu verið að gefa ráðherra allt of mikið vald.