144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:07]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur mjög svo gott dæmi og mjög erfiða spurningu. Ég viðurkenni það vegna þess að það er erfitt að svara því neitandi að ekki sé opnað á það að jafnmikið vald sé hægt að misnota.

Þá fer ég aftur að því að ef lög um opinbera stjórnsýslu eru höfð til hliðsjónar, eins og vera ber, og málið ígrundað og rannsakað þá geri ég ráð fyrir að ráðherra taki ekki slíka ákvörðun einhliða heldur leiti sér ráðgjafar eins og í áliti umboðsmanns í fiskistofumálinu.

Í tilviki Tryggingastofnunar, eðli málsins samkvæmt, mundi almenn skynsemi, fyrsta kastið án þess að farið sé út í miklar rannsóknir, segja manni að aðgengi skipti máli, að hún sé miðlæg og að þar sé fyrirliggjandi þekking sem við þurfum á að halda á mjög svo flóknum lagagrunni o.s.frv. Það þarf að taka mjög margar breytur og hafa til hliðsjónar áður en ákvörðun er tekin. Það er fyrst og fremst sú krafa sem við verðum alltaf að gera til þeirra sem stjórna, hvort sem það er ráðherra, með þetta mikla vald, eða einhver annar.